151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Var það ekki þjóðsaga í gamla daga að enginn gæti verið skáld nema svelta heilu hungri? Ætli það sé þá ekki kenningin varðandi frumkvöðlana að enginn geti orðið almennilegur frumkvöðull eða staðið sig vel í þeirri grein nema svelta heilu hungri? Nei, það er auðvitað ekki þannig.

Auðvitað snýst þetta um svo margt og þarf kannski ekki að tæma það. En eitt er að skapa einhvers konar aðstöðu eða hvetjandi umhverfi þar sem þeir sem eru með nýjar hugmyndir og eru að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að gera þetta og komast eitthvað áfram geta sótt sér innblástur og átt samfélag við fólk. Ég held að hugmyndir um einhvers konar nýsköpunargarða, skulum við kalla þá, séu mjög sniðugar. Á hinn bóginn þarf líka að passa sig á því, og ég hef samúð með því sjónarmiði, að byggja ekki upp mjög þunglamalegt stofnanastoðkerfi sem snýst að einhverju marki eða getur farið, og ég er ekki að benda á einn eða neinn, að snúast um sjálft sig. Það er alltaf eitthvað sem menn verða að hafa á bak við eyrað. En ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að allur þessi sægur af hugmyndaríku fólki geti fundið kröftum sínum einhvern farveg og eðlilegt að hið opinbera komi að því með aðstöðusköpun og eftir atvikum fjárhagslegum stuðningi.