151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil árétta það að ég vísaði í Kristján Leósson vísindamann hér áðan og hans umsögn. Hann er þróunarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment ehf. og á farsælan feril við Háskóla Íslands að baki. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi sjóði Evrópusambandsins og ég tek undir það með honum að þar leynast ótal tækifæri sem nú þegar hafa nýst íslensku rannsóknar- og vísindafólki. Nýlegt dæmi eru svefnrannsóknir sem hlutu evrópskan styrk úr sjóðum Evrópusambandsins til þróunar og nýsköpunar. Sömuleiðis hlaut íslenskur tónlistarmaður nýlega digran styrk úr sjóðum Evrópusambandsins til þróunar á gervigreind og tónlist, og svo mætti lengi telja.

Það virðist vera að margir, bæði ráðamenn og þingmenn, tali um nauðsyn þess að efla nýsköpun og að nýsköpun sé tækið og tólið út úr Covid og í viðspyrnunni. Þess vegna er dapurlegt að sjá þetta frumvarp hér og niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar og í raun óljósa sýn á hvað taki við á sviði nýsköpunar, á sama tíma og við erum nánast öll að leggja áherslu á nýsköpun sem eigi að vera leiðin út úr Covid.

Mig langar þess vegna aðeins að heyra nánar um hugmyndir hv. þingmanns um þátt nýsköpunar sem leiðar fyrir okkur í viðspyrnunni út úr efnahagskreppunni vegna heimsfaraldursins, hvaða hugmyndir hann og hans flokkur hefur þegar kemur að þætti nýsköpunar. Við erum með ótrúleg tækifæri í höndunum akkúrat núna, að styðja við nýsköpun sem viðbragð við Covid. Þess vegna þurfum við öll að skerpa okkur og skýra okkur þar.