151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti eignað mér heiðurinn af umræðunni um þetta millistig, en ég sótti það í og vitnaði til umsagnar Verkfræðingafélags Íslands. Svo ég lesi þá setningu, með leyfi forseta:

„Að mati VFÍ þarf að vera til eining sem sinnir því millistigi sem eðlilega verður milli háskólarannsókna og vöruþróunar fyrirtækja í ríku samstarfi við háskóla og atvinnulíf, á sviði byggingarrannsókna sem og á öðrum sviðum tæknirannsókna, jafnframt því að vera til ráðgjafar og veita sprotafyrirtækjum faglegan stuðning.“

Tengingin við háskólasamfélagið er atriði sem skiptir máli í þessu sambandi. Það er skemmst frá því að segja að háskólarnir, eins og til að mynda Háskóli Íslands, sýnast taka vel í það samstarf sem þarna virðist stefnt að milli einkahlutafélags og háskóla. En fram kom mjög gagnleg og skýr ábending frá Háskóla Íslands, sem við hv. þingmaður, félagi minn í Miðflokknum, Sigurður Páll Jónsson, tókum upp í okkar álit. Hún er að það væri ekki varlegt að gera ráð fyrir því að þetta nýja einkahlutafélag gæti sótt sér umtalsverða fjármuni í erlenda samkeppnissjóði eins og Nýsköpunarmiðstöð hefur tekist, vegna þess að rekstrarformið er kannski ekki það allra heppilegasta í þessu. En að því slepptu þá þurfa menn, áður en þeir geta með árangursríkum hætti sótt fé í slíka sjóði, að hafa skapað sér ákveðið orðspor og hafa kynnt sig á þessum vettvangi sem marktæka viðtakendur slíks fjár.