151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni kærlega fyrir andsvarið. Varðandi þetta millistykki er einn þáttur í því sem mig langar að bæta við, sem ég hef áður sagt: Sumar rannsóknir henta mjög vel þeim aðilum sem starfa á vettvangi háskóla. Þá snýst allt um það að fást við efni og skila niðurstöðum sem fást birtar í viðurkenndum, helst erlendum fræðiritum. Þetta er auðvitað leiðin að framgangi innan hins akademíska samfélags. Síðan eru aðrar rannsóknir, við getum kannski kallað þær, svona til að stytta okkur leið, af hagnýtara tagi eða eitthvað slíkt, sem ekki henta jafn vel í þessu skyni en eru nauðsynlegar og eru samfélaginu nauðsynlegar. Við sjáum að það getur tekist gott samstarf við háskólana um fyrrgreindu tegundina af rannsóknum en hitt er skilið eftir í einhvers konar limbói, ef svo má orða það. Það er í raun og veru ófrágengið mál. Að vísu er tekist á við þetta í tillögu meiri hlutans en það er um að marka eigi stefnu í þessum efnum varðandi byggingarrannsóknirnar. Það á að gefa sér tvö ár í það. Hitt atriðið ætti að liggja fyrir núna og hefði átt að liggja fyrir við framlagningu frumvarpsins.

Varðandi orð hv. þingmanns um hamfarastefnu þá get ég sagt um hana (Forseti hringir.) að maður hefði kannski talið að meiri ígrundun en sýnist mega ráða af þessu frumvarpi hefði verið æskileg.