151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvort við getum leitað fyrirmynda í Evrópusambandinu. Ég held að við séum nú þegar að því vegna þess að það er svo ofboðslega mikið af styrkjum, sérstaklega á grunnrannsóknum en líka hagnýtum rannsóknum eða hvað við köllum þær, sem koma lóðbeint úr sjóðum Evrópusambandsins. Við erum með Horizon-áætlunina, við erum með Erasmus-áætlunina, við erum með allar þessar gríðarstóru styrkjaáætlanir. Ísland þarf vissulega að greiða aðildargjald til að vera þátttakandi í því en í krafti þess að á Íslandi er fólk með góðar hugmyndir og í góðri stöðu til að hrinda þeim í framkvæmd og oft með meira krassandi rannsóknarefnivið en víðast hvar þá er árangurshlutfall íslensks vísindafólks miklu meira úr þessum sjóðum heldur en það sem hið opinbera þarf að leggja af mörkum. Evrópusambandið er nú þegar í dag að næra nýsköpunarsamfélagið miklu meira en hið opinbera myndi nokkurn tímann hafa treyst sér í á eigin forsendum.

Og talandi um fyrirmyndir þaðan, nú dett ég kannski aftur út í millistykkislíkinguna vegna þess að það sem Evrópusambandið hefur verið að þokast í átt til er aukið og betra samstarf á milli fræðasamfélagsins og atvinnulífsins og að rannsóknir sem styrktar eru af sjóðum Evrópusambandsins nái þeirri samlegð sem er hægt að ná fram þar. (Forseti hringir.) Þar erum við með á Íslandi dæmi um öll þessi stóru og stærstu nýsköpunarfyrirtæki (Forseti hringir.) sem spretta upp úr slíku samstarfi þannig að áherslur Íslands á þessu sviði (Forseti hringir.) ættu náttúrlega að fara hönd í hönd við það sem Evrópusambandið er að gera þessa dagana.