151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er kjarni málsins, innleiðing menntastefnu er auðvitað lykillinn að því að ná fram settum markmiðum eins og hér segir í niðurlagi stefnunnar. Ég er undrandi yfir því að í þessari menntastefnu er nánast sniðgenginn þessi mikilvægi þáttur um fullorðinsfræðsluna því að hér er sérstakur liður sem heitir Menntun alla ævi. Það eru símenntunarmiðstöðvarnar og fræðslumiðstöðvarnar sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Og af því við vorum að tala um nýsköpun hér undir 4. dagskrárlið þingsins í dag þá geta þær einmitt komið þar að málum. Þrátt fyrir að hafa oft verið nefndar fimmta stoðin, eins og kemur fram í nefndarálitinu, þá hafa þessar menntastofnanir búið við mjög mikið óöryggi í starfsemi sinni og rekstri og stjórnvöld hafa ekki markað þeim þann sess sem þeim ber. Hvað segir hv. þingmaður um það?