151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér menntastefnu og eins og ég sagði í fyrri umræðu er margt mjög gott í stefnunni, ekki síst það að menntastefna sé komin fram. Ég held að það sé mikilvægt. Auðvitað er öllum vandi á höndum þegar setja á saman menntastefnu fyrir öll skólastigin. Ekki viljum við að hún sé of löng eða of ítarleg heldur kannski fyrst og fremst markviss og að hægt sé að vinna með hana. Ég ætla að byrja á því að segja að mér finnst margt mjög gott í menntastefnunni en eðli málsins samkvæmt ætla ég frekar að fara yfir það sem mér þykir skorta á, þ.e. það sem hefur komið svolítið til umræðu í dag og ég nefndi í andsvari fyrr í kvöld, sem sagt drengir í skólakerfinu og sú staðreynd að þeir virðast ekki ná sömu lestrarhæfni í grunnskólum og stúlkur. Of algengt er að þeir upplifi ekki að skólinn sé hannaður fyrir þá. Þá er ég svolítið að vísa í umræðurnar við eldhúsborðið heima hjá mér. Ég á unga drengi sem segja: Mamma, þú ert alltaf að tala um jafnrétti en það er ekkert jafnrétti í skólanum. Auðvitað er sorglegt að einhverjir kunni að upplifa það með þeim hætti. Þess vegna tala ég kannski fyrir ákveðinni kynjaðri nálgun.

Ég ætla að nefna sérstaklega í því samhengi Hjallastefnuna sem byggir á þeirri nálgun að kynin séu aðskilin að hluta í starfinu og þá sé sérstaklega horft á þarfir þeirra. Samkvæmt alla vega einhverjum upplýsingum virðist t.d. ekki vera mælanlegur munur á milli hæfni kynjanna í lestri í grunnskóla Hjallastefnunnar. Að því sögðu er ég ekki að segja að menntastefna á Íslandi ætti að vera eins og Hjallastefnan en mér þykir mikilvægt að við séum með fjölbreytileika þegar kemur að skólunum okkar. Þess ber að geta að það orð er töluvert notað í menntastefnunni. Við tölum um fjölbreytt menntasamfélag og við tölum um fjölbreytileika þegar við erum að tala um kennslu í fremstu röð. Það er mikilvægt. Það sem mér þykir persónulega vanta inn í umræðu um fjölbreytileika er fjölbreytileiki í rekstrarformi. Ég er nefnilega sannfærð um að fjölbreytt rekstrarform í jafn mikilvægum grunninnviðum — af því að það er svo vinsælt orð hjá stjórnmálamönnum — og skólakerfinu okkar skipti mjög miklu máli. Það eykur á samkeppni og samkeppni er af hinu góða. Á sama tíma á fólk að hafa ákveðið frelsi um hvað það velur fyrir barnið sitt þar til barnið er komið með aldur til að velja sjálft um hvaða skóla það sækir. Ég myndi vilja sjá unnið enn frekar með þessa þætti. Það var svo sem komið inn á það í andsvari að talað er um drengi í skólakerfinu í nefndaráliti meiri hlutans og þar segir, með leyfi forseta:

„Margar af þeim umsögnum sem nefndinni bárust beindust að alvarlegri stöðu drengja í menntakerfinu en niðurstöður kannana sýna að allt að 34% drengja geti ekki lesið sér til gagns. Mikið var fjallað um þessa stöðu og hugsanlegar lausnir og telur nefndin að taka verði á þessum vanda og finna árangursríka leið til þess að vinna bug á honum.“

Ég get samt ekki séð í breytingartillögum við stefnuna að tekið sé á þessu sérstaklega. Þá verður Alþingi enn og aftur að ítreka eftirfylgnihlutverk sitt með framkvæmdarvaldinu og sjá til þess að nákvæmlega það sem stendur hér verði gert, þ.e. að fylgjast með stöðunni og finna árangursríkar leiðir til að vinna bug á henni. Ég hef nefnt eina leið sem ég held að sé notadrjúg til að ná þeim árangri og það er ákveðin kynjuð nálgun í skólunum. Nú vísa ég sérstaklega til grunnskólanna þegar við tölum um lestrarhæfni og fjölbreytileika, bæði í stefnum sem þar fá að ríkja en ekki síður í rekstrarforminu.

Þá ætla ég aðeins að koma inn á það sem hv. þingmenn, eða þingkarlar, sem töluðu á undan mér ræddu sín á milli, þ.e. karlkennara. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við fjölgum körlum í kennarastéttinni. Í ræðu sinni nefndi hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson að hann teldi að við þyrftum að fara að nálgast kynjajafnrétti með öfugum formerkjum. Það er vegna þess að okkur er of tamt að tala þannig um kynjajafnrétti að huga þurfi að stöðu kvenna og að konur séu þar einhvers staðar undir. Það er auðvitað misskilningur. Þegar við tölum um jafnrétti og jafnrétti kynjanna erum við auðvitað að tala um bæði kynin og öll kynin þegar það á við, einmitt á þeim forsendum að samfélagi sem nýtir krafta allra, fyrirtækjum sem eru með bæði karla og konur í stjórnum og í stjórnunarstöðum, vegni einfaldlega betur. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að við fjölgum karlkennurum.

Þá ætla ég að leyfa mér að halda því fram, af því að við höfum rætt um launakjör kennara og aðeins komið inn á starfsumhverfi þeirra og áhyggjur af því, að fjölgun karla í kennarastétt gæti haft mjög jákvæð áhrif á launakjör kennara — því miður því að það er auðvitað fáránlegt. En einhvern veginn eru launakjör í stéttum sem við tölum um sem kvenlægar, þar sem eru fleiri konur eða konur eru í yfirgnæfandi meiri hluta, einfaldlega síðri. Ég held því að það sé eitt af atriðunum sem skipta miklu máli til að bæta kjör kennara, þar af leiðandi auki það enn við að eftirsóknarvert verði að sinna kennslu og hafi jafnvel líka áhrif á starfsumhverfið.

Sá þáttur sem ég nefndi áðan, fjölbreytileiki í rekstrarformi, held ég að sé líka leið til að bæta kjör kennara. Það sem einkennir mjög þessar týpísku kvennastéttir er að fólk sem útskrifast úr námi sem fellur gjarnan undir þær starfsgreinar, og oftast eru það konur, hvort sem það eru leikskólakennarar, grunnskólakennarar, umönnunarstéttir, hjúkrunarfræðingur eða aðrir, hafa yfirleitt bara val um að vinna hjá hinu opinbera. Ég held að fjölbreytni í rekstrarformi geri það að verkum að samkeppni verði um þessa aðila og að þeir geti valið sér starfsumhverfi, geti valið sér vinnuveitanda. Það skiptir einfaldlega mjög miklu máli hvað starfsumhverfi varðar, hvað launakjörin varðar og bara alla samkeppni í þessum geira. Ég held að það skipti máli því að við þurfum einhvern veginn alltaf að vera á tánum og við þurfum alltaf að keppa að því að gera menntakerfið okkar að því allra besta.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en eins og ég sagði áðan er ég bara að nefna þá þætti sem ég hefði gjarnan viljað sjá fjallað um í menntastefnunni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Hér er margt mjög gott og aðalbótin er auðvitað sú að við erum komin með menntastefnu. En ég hefði viljað sjá aðeins meiri kynjaða nálgun þegar kemur að þessu málefni.