151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrirliggjandi frumvarp skortir vandaðan undirbúning. Í stað þess að leggja grunn að opinberum stuðningi við nýsköpun sýnist frumvarpið helst snúast um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og færa hluta af verkefnum hennar í einkahlutafélög. Aðgerðir stjórnvalda hafa þegar valdið mikilli óvissu um framhaldið, að ekki sé talað um óboðlega framkomu við starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar. Hv. atvinnuveganefnd lagði sig fram um að berja í brestina og við Miðflokksmenn styðjum breytingartillögur hennar.

Herra forseti. Fjárhagsáætlun fyrir fyrirhugað einkahlutafélag er enn ekki komin fram en ekki hefur verið gengið frá framtíðarskipan byggingarrannsókna með fullnægjandi hætti. Ég óska þess að málið verði tekið fyrir í hv. atvinnuveganefnd milli umræðna til að nefndinni gefist færi á að fara yfir þessa mikilvægu en óloknu þætti í málinu og eftir atvikum önnur atriði sem máli skipta.