151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við spurningunni sem kemur hér síðast er augljóslega nei, enda hefur ríkisstjórnin sýnt það í verki að aðgerðir hennar, bæði við kjarasamningagerð og í áherslum í skattamálum, hafa nýst tekjulægri endanum miklu betur en öðrum hlutfallslega. Hér er komið inn á nýsköpunarmálin. Réttnefni fyrir þessa ríkisstjórn væri einmitt nýsköpunarríkisstjórnin vegna þess að slíkar breytingar hafa orðið á því sviði á undanförnum árum að við höfum sjaldan séð annað eins. Ég rakti það í minni framsögu áðan, 70% aukning í rammasettum útgjöldum til þess málefnasviðs. Það er gríðarleg breyting og skýrt merki um að ríkisstjórnin vill trúa á hugvit fólksins í landinu, framtakssemi þeirra sem eru að vinna að því að stofna lítil fyrirtæki, eru í grunnrannsóknum eða vilja sækja í samkeppnissjóði, sem við höfum stóreflt, til þess að fylgja eftir hugmyndum sem lofa góðu.

Endurgreiðslurnar, hvatar til fjárfestinga — allt ber að sama brunni. Við trúum á kraftinn, frumkvæði fólksins í landinu og erum að reyna að greiða götu þess þannig að þessi verðmætu störf verði til inn í framtíðina. Ég sé ekki mikinn ágreining við nokkurn mann hér inni um þessa stefnumörkun. Síðan getur fólk greint á um það, af því að ég tek eftir að menn staldra við skuldahlutföllin — en það er ekkert annað ábyrgt, sérstaklega þegar við horfum til baka og horfum til þess hversu miklum sköpum það skipti að vera með lág skuldahlutföll, hafa sterka stöðu ríkissjóðs þegar áfall dynur yfir, en að segja að við hljótum að stefna að því að loka fjárlagagatinu til framtíðar þó ekki væri nema að ná frumjöfnuði sem hlýtur að vera algjört grundvallaratriði árið 2025 og stöðva þannig hækkun skuldahlutfallanna. Þannig ætlum við ekki endalaust að velta vandanum, sem nú hefur borið að garði, yfir á framtíðarkynslóðir heldur vera með nokkurra ára áætlun um að ná hallanum niður smám saman og byrja að byggja okkur upp að nýju þegar ástandinu er lokið.