151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hvaða mælistiku maður notar til að mæla árangurinn sem maður hefur áhuga á að mæla. Hv. þingmaður vill nota vöxt í landsframleiðslu en ég er að benda á að landsframleiðslustigið var metið upp á við fyrir árið 2019. Landsframleiðslan dróst mun minna saman árið 2020 en áður hafði verið gert ráð fyrir sem leiðir til þess að vöxturinn á þessu ári getur ekki orðið jafn mikill og áður var spáð. En þegar við metum stöðuna eru hagvaxtarhorfurnar ekki verri. Þær eru betri. Við erum í miklu betra ástandi heldur en við þorðum að vona og horfurnar eru bjartari en í síðustu áætlun.