151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:18]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra viðurkennir hér að ekki hafi tekist sem skyldi og ríkisstjórninni hafi ekki tekist að hrinda því í framkvæmd sem hún ætlaði sér. Þetta er auðvitað sorglegt vegna þess að það er ekki eins og þessi vandi, sem minnst er á í rammagrein 10 um opinberar fjárfestingar, hafi ekki legið fyrir. Það vill nú svo skemmtilega til að í desember 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu frá Viðreisn sem fjallaði m.a. um þessi atriði; um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Með þetta hefur ekkert verið gert. Ríkisstjórnin hefur boðað frumvarp um fjárfestingar, eins og kemur fram í greinargerðinni, í rammagreininni. Það frumvarp átti að koma fram í fyrra. Það kom ekki fram þá. Það á að koma fram núna en það hefur ekki enn litið dagsins ljós. Það er nokkuð seint í rassinn gripið að ætla að fara að ráðast í breytingar af þessu tagi þegar þörfin fyrir allar fjárfestingarnar er liðin hjá.