151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sérstaka fjárfestingarátak sem við erum að ræða hér er átakið sem við boðuðum í kjölfar kórónuveirufaraldursins snemma á síðasta ári. Það er mikil áskorun að koma milljarðatugum í vinnu með skömmum fyrirvara, í áhlaupi. Það er bara staðreynd. Þetta eru mjög háar fjárhæðir sem við erum að fjalla um. Sumt af því sem dregist hefur var óviðráðanlegt. Ég get nefnt hér sem dæmi að hraðinn við uppbyggingu Landspítalans hefur ekki verið alveg sá sem vonast var til. Eitthvað er það í uppbyggingu samgöngumannvirkja sem á sinn þátt í þessu. En það breytir ekki hinu að við höfum tryggt fjárheimildirnar, við jukum fjárfestingarstig ríkisins í fyrra. Við gerðum það. Ég hef væntingar um að það verði töluverður vöxtur á yfirstandandi ári í fjárfestingu þannig að við erum ekki bara búin að fjármagna átakið heldur erum við að vinna markvisst að því að fylgja því eftir. En ég viðurkenni það hins vegar alveg og það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn í því að það er eitthvað í okkar stofnanastrúktúr, eitthvað í leiðslunum hjá okkur, sem virðist vera dálítið stíflað. (Forseti hringir.) Við því verður að bregðast og við tökum það sérstaklega út í rammagrein 10 hvað mætti verða að gagni til að bæta úr því.