151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er ósköp skrýtið ástand og við erum ítrekað minnt á að það er ekki búið. Þegar maður veltir því fyrir sér að ekki eru nema rétt ríflega 90 dagar frá því að við samþykktum síðustu fjármálaáætlun hefur svo sem eitt og annað gerst. Fyrst og fremst er það kannski þessi góða staða ríkissjóðs, sem var í upphafi þegar faraldurinn skall á, sem hefur skipt okkur gríðarlega miklu máli í því að takast á við þann vanda sem við blasir. Áhrif þessa faraldurs og hversu lengi hann stendur er okkar helsta efnahagslega óvissa í dag.

Sem betur fer voru ýmsar hagstærðir ekki jafn dökkar og gert var ráð fyrir þegar við samþykktum síðustu áætlun, þann 17. desember. Það er mikilvægt að horfa til heildarhagsmuna. Um leið og við þurfum að lækka skuldastöðu ríkisins þarf að standa vörð um innviði og tryggja lífskjör allra íbúa, halda áfram að byggja upp okkar helstu innviði og þróa þá í takt við tímann. Við þurfum að hafa alla anga úti til að styðja við aukna atvinnu, bæði með framlengingu á þeim aðgerðum sem nú þegar hafa sýnt sig að virka og vera opin fyrir nýjum leiðum. Þær gríðarmiklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru eru auðvitað atvinnuskapandi en útgjöld vegna fjárfestinga jukust um tæp 6% á síðasta ári og í raun mun meira ef leiðrétt er fyrir Vestmannaeyjaferjunni, er í kringum 12% aukning á milli ára, um 66 milljarðar. Sú ákvörðun að ráðast í jafn stórt fjárfestingar- og uppbyggingarátak á árunum 2020–2023, til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu, skipti miklu máli þegar við samþykktum síðustu áætlun og gerir áfram. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti fjárfestinga á þessu ári og að fjárfestingarstig hins opinbera haldist áfram hátt á næstu árum. Tilgangurinn er auðvitað að vinna gegn samdrætti í efnahagslífinu í þessari miklu efnahagslægð sem við þekkjum sem afleiðingu kórónuveirufaraldursins um leið og við leggjum grundvöll að auknum hagvexti eftir faraldurinn með margs konar verkefnum sem auka framleiðni. Við þekkjum þetta. Ég nefni aukinn stuðning, eins og hér hefur verið rakið, við nýsköpun og rannsóknir, stafræna þróun, viðhald. Við erum að endurbæta fasteignir og við erum að vinna verkefni tengd orkuskiptum og grænum lausnum.

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála um að atvinnuleysið sé ein versta afleiðing þeirrar kreppu sem við þurfum að glíma við. Þess vegna er afar mikilvægt að styrkja og styðja við fólk og fyrirtæki og að við gerum okkar allra besta til að verðmæt störf og þekking tapist ekki, og það á að sjálfsögðu við um öll kyn, og alls staðar verðum við að hafa alla anga úti. Það er ýmislegt sem við þurfum að huga að þegar við glímum við svona mikið atvinnuleysi og eitt af því sem mun nýtast okkur er að vinna með velsældarmælikvarðana og markmiðin því að hagur almennings er það sem við þurfum að tryggja til að ná okkur út úr þessu ástandi. Ríkisstjórnin lagði sex velsældaráherslur til grundvallar við gerð síðustu fjármálaáætlunar og fjárlaga. Saman endurspegla þessar áherslur stefnu ríkisstjórnarinnar og horfa til framtíðar á mikilvægum sviðum. Þessar sex áherslur hefur ríkisstjórnin sett í forgrunn og þær varða andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning. Það er unnið að því á alþjóðavísu að þróa svona mælikvarða og það er skref í átt að sameiginlegum skilningi á því hvaða þættir gera líf fólks betra.

Virðulegi forseti. Þetta er gott mælitæki til að nýta þegar kemur að forgangsröðun fjármuna. Í þessari fjármálaáætlun er lögð áhersla á geðheilbrigðismál, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga og á árunum 2018–2021 hækkuðu bein fjárframlög til geðheilbrigðismála um ríflega milljarð. Þeir fjármunir fóru til heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Framlög til geðheilbrigðisþjónustu hækka árlega um 100 milljónir á ári út áætlunartímann í samræmi við geðheilbrigðisstefnuna og hefur fjárheimildin þá hækkað um 400 milljónir í lok tímabilsins. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa því árleg framlög til geðheilbrigðisþjónustu verið aukin ár frá ári og verður hækkunin rúmir 1,5 milljarðar. Sama má segja um greiðsluþátttöku sjúklinga, hún lækkar um 800 milljónir á ári til ársins 2025 og hefur greiðsluþátttakan þá lækkað um ríflega 4 milljarða í heild frá og með árinu 2020. Þetta skiptir allt máli og ekki síst fyrir fólk sem nú er atvinnulaust og hefur minna á milli handanna, að þessi þátttaka í heilbrigðisþjónustu lækki. Við eigum auðvitað að stefna áfram sama veg. Með þessu erum við að ná svipaðri stöðu og er á Norðurlöndunum og að því höfum við lengi stefnt og það er vel.

Af því að ég talaði um fjárfestingu áðan þá er, eins og við þekkjum, hafin framkvæmd við uppsteypu á meðferðarkjarnanum við Hringbraut og áætlað er að henni ljúki 2023. Þá tekur við ýmis vinna sem tengist húsinu. Hönnun rannsóknarhúss er líka á lokastigi og útboð á jarðvinnu er í undirbúningi. Einnig á að fara í alútboð á bílastæði og tæknihúsi. Það er margt fram undan þegar kemur að því að hlúa betur að umgjörð okkar í heilbrigðismálum.

Virðulegi forseti. Fólk hefur sagt að það sé mikilvægt, og ég tek undir það, að við vöxum út úr þessari kreppu og helst með grænar áherslur. Ég verð því að lýsa ánægju minni með aukninguna í loftslagsmálin frá því að þessi ríkisstjórn tók við enda eitt stærsta málið sem við þurfum að takast á við og snertir okkur öll á alla vegu sem og næstu kynslóðir. Framlögin verða aukin um milljarð á þessu ári, samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar, og aðgerðirnar eru hertar og þær eru sérstaklega á fjórum sviðum. Það eru náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum. Þar er m.a. unnið að landgræðslu og skógrækt, vernd og endurheimt votlendis í samstarfi við bændur og aðra landeigendur. Síðan er það í landbúnaðinum sjálfum, því verður hraðað, þar sem verið er að vinna enn frekar að loftslagsvænni landbúnaði í því skyni að fjölga verulega bændum sem taka þátt í slíkum verkefnum. Svo er það aukinn stuðningur við orkuskipti í samgöngum á landi, hafi og í lofti — öllu þessu á að hraða og lögð verður sérstök áhersla á orkuskipti á sviði ferðaþjónustu og þungaflutninga sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli.

Verið er að styðja við innlenda framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti til að mæta m.a. þessum þörfum. Við leggjum líka áherslu á eflingu umhverfisvænni almenningssamgangna og ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að horfa verulega í, ekki síst þegar við fjöllum um borgarlínu, að við ætlum að efla vistvænar almenningssamgöngur, vera með vagnana umhverfisvænni og bæta almennt innviðina fyrir þennan ferðamáta og annan með uppsetningu hleðslustöðva. Þessar aðgerðir stuðla að uppfyllingu markmiða okkar og eins og rætt hefur verið um höfum við sett okkur það markmið að stefna að 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030 og að við náum kolefnishlutleysi 2040. Allt þetta skiptir mjög miklu máli þegar við horfum til framtíðar því að þessi mál koma til með að hafa áhrif á allt okkar samfélag og í raun gerist lítið ef þessi mál verða ekki í lagi.

Virðulegi forseti. Það hafa verið taldar upp mjög margar aðgerðir sem farið hefur verið í og óþarfi að endurtaka það. Ýmsar aðgerðir hafa reynst vel, styrkir og stuðningur og annað því um líkt, en það er alltaf þannig að við þurfum að gera betur við að gera gott samfélag betra. Einhvern veginn lýkur því verkefni aldrei. Þess vegna held ég að við þurfum að vera vel vakandi næstu árin, líklega bara strax í haust. Eins og ég sagði er staðan einhvern veginn þannig að við vitum varla hvað gerist á morgun. Ég held að við höfum ekki endilega átt von á því að vera í þeim sporum sem við erum í í dag, að vera komin aftur á bak. Við glímum væntanlega við það verkefni út þetta árið og mun lengur en við héldum kannski í upphafi. En ég tel að þessi fjármálaáætlun styðji vel við það sem ríkisstjórnin hefur lagt af stað með og sýnt er að aðgerðir hafa skilað árangri.