151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einmitt að reyna að koma því til skila að við viljum að sjálfsögðu reyna að gera betur og ég hef alla trú á því að niðurstaðan í ríkisreikningi verði betri en hún lítur út í fjármálaáætlun. Það er almennt séð sú regla sem hið opinbera á að fara eftir varðandi grunngildi um varfærni, að spá í raun fyrir um verri niðurstöðu en verður síðan og það er allt gott og blessað með það. Gerð var þjóðhagsspá í október og lögð var fram stefna til þess að gera betur en það sem fram kom þar. Afleiðingin er sú að við fáum nýja þjóðhagsspá sem lítur verr út. Ég held að þetta muni samt koma betur út en sú þjóðhagsspá segir til um, en afleiðingin af stefnunni sem við erum að fjalla um núna, af því að hún er óbreytt frá því fyrir jól, er verri þjóðhagsspá en áður en stefnan var lögð fram.

Þess vegna skil ég ekki af hverju ekki eru gerðar breytingar, því að stefna stjórnvalda í síðustu fjármálaáætlun var gagnrýnd. Ég gagnrýndi hana fyrir að taka ekki á því atvinnuleysi sem við horfðum fram á þá. Það var ekkert um það í rauninni. Við vitum alveg hvernig aðgerðir stjórnvalda hafa verið hingað til. Reynt hefur verið að grípa í skottið á því ástandi sem er að myndast, að bregðast við jafnóðum, en ekki að setja stefnu fram á við og reyna að ná markmiði hennar. Við fáum ekkert svoleiðis. Við fáum bara eftiráaðgerðir um að redda þessu fram í tímann: Hver er staðan núna? Hún er þessi: Búum þá til aðgerðir núna og vonumst til þess að þær lagi eitthvað fram í tímann.

En það er aldrei sagt hvað það á að vera. Raunin er sú, miðað við þá stefnu sem samþykkt var fyrir áramót, að efnahagshorfur samkvæmt þjóðhagsspá eru orðnar verri, ekki betri. Ef við ætluðum að gera betur hefði þjóðhagsspá átt að vera orðin betri.