151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fyrir nánast réttum þremur mánuðum samþykkti Alþingi fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. Sú áætlun var mjög seint á ferðinni vegna þess að stjórnvöld treystu sér ekki til að leggja hana fram á réttum tíma sem hefði átt að vera fyrir u.þ.b. ári. Ástæðuna þarf ekki að rekja fyrir þingheimi. Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn með 223 milljarða kr. halla á næsta ári samkvæmt þessari nýju fjármálaáætlun. Hallinn á svo að fara lækkandi ár frá ári og verða 59 milljarðar kr. árið 2026. Samanlagður halli ríkissjóðs á árunum 2022–2026 er áætlaður 590 milljarðar kr. Við þá upphæð má bæta að hallinn í fyrra er áætlaður 196 milljarðar kr. og halli verður á rekstri ríkissjóðs í ár, 320 milljarðar kr. Loks er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 1.100 milljörðum kr. lægri en útgjöld hans á sjö ára tímabili, frá byrjun síðasta árs og út árið 2026. Þetta er ekkert smáræði.

Ný hagspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir 2,6% hagvexti í ár, 4,8% á næsta ári, 3,8% árið 2023 og að árlegur hagvöxtur verði að jafnaði 2,4% árin 2024–2026. Þrátt fyrir þennan vöxt er gert ráð fyrir að skuldasöfnun stöðvist ekki fyrr en árið 2025. Það eru ekki góð tíðindi. Reiknað er með að heildarskuldir verði rúmlega 3.500 milljarðar kr. Það gefur augaleið að vaxtakjör á slíkum skuldum geta skipt sköpum. Hvert prósentubrot skiptir gríðarlega miklu máli.

Herra forseti. Miðað við yfirlýsingar og nánast ástarjátningar milli ríkisstjórnarflokkanna um hversu vel samvinna þeirra hefur gengið og að allir geti þeir vel hugsað sér að starfa saman áfram verður að ætla að ríkisstjórnin ali með sér þann draum að geta haldið áfram ríkisstjórnarsamstarfinu og þannig séu nýlega samþykkt fjárlög fyrir yfirstandandi ár og þessi fjármálaáætlun vegvísir inn í framtíðina fyrir stjórnarflokkana. Kosningar eru eftir sex mánuði og það væri harla sérkennilegt ef þessir þrír flokkar myndu skipta um kúrs, hafandi lagt fram slíkan vegvísi og stefnuyfirlýsingu um hvernig þeir sjá framtíðina saman fyrir sér. Það verður a.m.k. harla önugt fyrir þá að heyja kosningabaráttu sína á öðrum grunni. Það væri harla ótrúverðugt að kynna núna plan út árið 2026, þ.e. rúmlega allt næsta kjörtímabil, en skipta strax um kúrs að lokinni samþykkt þess hér á Alþingi. Þessi áætlun hlýtur því að vera límið sem heldur drauminum um framhaldslíf stjórnarinnar saman. Verði sá draumur hins vegar að martröð blasir við að öðruvísi skipuð ríkisstjórn mun fá það verkefni að stokka upp spilin, gefa út nýja fjármálastefnu, fjármálaáætlun, og leggja fram fjárlög fyrir árið 2022. Það held ég að væri raunar afar skynsamlegt fyrir þjóðina, að gefa þessari ríkisstjórn langt og gott frí.

Þessi nýja áætlun bætir litlu sem engu við hina fyrri. Engar efnislegar breytingar eru gerðar á grunnsviðsmynd gildandi fjármálaáætlunar né á stefnu, markmiðum og aðgerðaáætlunum einstakra málefnasviða. Ekki er að finna neina uppfærslu í ljósi aðstæðna. Ekkert endurmat fer fram á nauðsynlegum og æskilegum breytingum á ýmsum sviðum, enginn viðbótarlærdómur dreginn af því hvað muni breytast í viðfangsefnum eða aðferðum. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til að sýna hvernig ríkisstjórnin ætlar að fjármagna margvíslega hluti sem hún hefur lofað í kastljósi fjölmiðlanna og má þar t.d. nefna nýja íþróttaleikvanga fyrir þjóðina og byltingu í meðferð mála sem snerta börn, svo ekki sé nú minnst á mál Viðreisnar sem samþykkt var af góðum meiri hluta Alþingis um stóraukna sálfræðiþjónustu. Þá er ekki að sjá að stórsókn í menntamálum sé fjármögnuð. Allt þetta kemur svo sem ekki á óvart enda er ríkisstjórnin kyrrstöðustjórn sem er helst búin að afreka það á þessu kjörtímabili að hún kann að halda flotta blaðamannafundi og er góð í að nýta auglýsingastofur. Umbúðir og áferð eru ær og kýr þessarar ríkisstjórnar.

Herra forseti. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum, hefur aukist hér mest af öllum OECD-ríkjum. Þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar er henni ekki að takast að ná tökum á þeim vanda. Hann mun verða verulegur næstu ár ef ekki verður skipt um kúrs. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi við lok áætlunartímabilsins verði á bilinu 4–5% sem er hærra en meðalatvinnuleysi síðastliðinna áratuga og merki um viðvarandi hærra atvinnuleysi en verið hefur hérlendis. Það þarf að horfast í augu við að við verðum að finna aðrar atvinnugreinar með meiri framlegð en ferðaþjónustuna til að taka við umtalsverðum fjölda fólks sem mun ekki eiga afturkvæmt á þann vettvang.

Verðbólga er hæst hér á landi í öllum Evrópuríkjum og er útlit fyrir að svo verði áfram á komandi árum. Gengi krónunnar sveiflast til. Fyrir tveimur árum var gengisvísitalan 178 stig, fór hæst í 214 í september í fyrra en var 193 stig í gær. Á mannamáli þýðir þetta að bíll sem kostaði 6 milljónir fyrir tveimur árum kostaði 7,2 milljónir ári síðar og hann kostaði 6,5 milljónir í gær. Sveiflan í þessu litla dæmi sýnir að sá sem keypti á versta tíma borgaði 1,2 milljónum meira en sá sem keypti á besta tíma. Mismunurinn er 20%. Svona leikur nú krónan sér að heimilunum.

Herra forseti. Þrátt fyrir það sem að framan er rakið vilja ríkisstjórnarflokkarnir halda í krónuna með öllum ráðum. Þeir treysta henni þó ekki betur en svo að búið er að leggja fram frumvarp sem felur í sér að það er gefið upp á bátinn að krónan geti staðið óstudd og án hafta. Óskað er eftir því að Alþingi staðfesti að krónan sé gjaldmiðill af því tagi að honum sé varlega treystandi. Það sé því nauðsynlegt að hafa á takteinum ýmis úrræði til að reyna að koma í veg fyrir þann skaða sem hann getur valdið. Þetta eru auðvitað stórtíðindi en merk fyrir þær sakir að hér er að fullu viðurkennt, af þeim sem standa þéttastan vörð um mikilvægi krónunnar, að hún geti ekki sinnt því hlutverki sem gjaldmiðill verður að geta gegnt í frjálsu og opnu hagkerfi án þess að víðtæk úrræði til inngripa og hafta séu tiltæk.

Herra forseti. Nýsköpun atvinnulífsins er okkur nauðsyn. Við verðum að byggja upp nýjar og fleiri greinar. Í því felst í senn aukin viðspyrna og stöðugleiki. Stuðningur við nýsköpun er ekki skammtímaverkefni. Við í Viðreisn erum óþreytandi við að benda á þetta. Innspýting til bráðabirgða dugar ekki. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki tryggt að um langtímafjárfestingu sé að ræða heldur aðeins til skamms tíma. Umgjörð nýsköpunar þarf að vera mjög sterk og fyrirsjáanleg. Þess vegna höfum við í Viðreisn lagt fram tvö frumvörp sem fela annars vegar í sér að festa í sessi sérstakar ívilnanir vegna rannsókna og þróunar sem voru ákveðnar til bráðabirgða í maí síðastliðnum og hins vegar að festa í sessi og rýmka tímabundnar heimildir lífeyrissjóðanna til að taka þátt í sameiginlegum fjárfestingum eða svokölluðum vísisjóðum. Með þessu móti teljum við að hægt sé að örva nauðsynleg umskipti í atvinnulífinu.

Herra forseti. Í andsvörum áðan við hæstv. fjármálaráðherra staðfesti hann það, sem við í Viðreisn höfum ítrekað bent á, að opinberar fjárfestingar eru ekki í nálægð við loforð ríkisstjórnarinnar. Við í Viðreisn vildum taka stór skref strax en enn bólar ekkert á þessum fjárfestingum. Það er ekki vottur um góða hagstjórn í dýpstu kreppu síðari tíma. Kjarni málsins er auðvitað hvenær svona hlutir koma til framkvæmda. Nú liggur alveg kristaltært fyrir að þessar framkvæmdir allar og fjárfestingar hafa dregist og hvað þýðir það fyrir þjóðarbúið og almenning? Verður hér ekki of seint í rassinn gripið og fjárfestingarnar verða af fullum krafti einmitt þegar hið almenna atvinnulíf er að taka við sér? Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir hagstjórnina og valdið þenslu á komandi árum.