151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Finnst mér afkoma ríkissjóðs skipta máli? Já. Þetta er ekki fyrsta ríkisstjórnin sem ég tek þátt í sem þarf að stríða við efnahagskreppu og ég veit að afkoma ríkissjóðs skiptir máli. Er ég þar með að segja að jöfnuður í samfélaginu skipti ekki máli? Nei, hann skiptir gríðarlega miklu máli. (LE: … beita sér þannig.) Þess vegna er verið að beita sér þannig. Þess vegna er verið að skapa störf. Þess vegna hefur þessi ríkisstjórn hækkað atvinnuleysisbætur um 35% á kjörtímabilinu, lengt tímabil tekjutengdra bóta, tryggt aukinn stuðning við atvinnuleitendur og aðra lágtekjuhópa, beint skattalækkunum að þeim sem lægri tekjurnar hafa og lengt fæðingarorlofið, sem er risastórt hagsmunamál, samhliða því að hækka greiðslur í því. Hv. þingmaður gagnrýnir að ekki hafi verið meira gert í þessu og að eignamyndun í samfélaginu hafi orðið mikil hjá vissum hópum. En þá hlýt ég að velta fyrir mér: Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að vextir hafa verið lágir. (Gripið fram í.) Hefði ég viljað hafa það öðruvísi? Nei, svo sannarlega ekki. Ég held einmitt að það hafi verið hluti af vel heppnuðum efnahagsaðgerðum að peningastefnan og ríkisfjármálastefnan hafa unnið saman og við höfum verið með lágt vaxtastig þennan tíma, sem hefur vissulega (Gripið fram í.) stutt við fólk … (Gripið fram í.)

(Forseti (WÞÞ): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Vissulega hefur lægra vaxtastig stutt við fólk til að eignast meira í húsnæði sínu, en heildaráhrifin af þessu lága vaxtastigi fyrir samfélagið eru jákvæð. Ég hlýt að velta því fyrir mér nákvæmlega í hverju þessi gagnrýni felst þegar rætt er um aukna eignamyndun á íbúðamarkaði sem stafar fyrst og fremst af lægra vaxtastigi.