151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp málefni þeirra sem höllustum fæti standa, hvort sem það eru tekjulágir einstaklingar eða örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Ég vil minna hv. þingmann á að við höfum auðvitað gripið til margháttaðra aðgerða til þess að styrkja stöðu örorkulífeyrisþega á þessu kjörtímabili. Það hefur verið dregið úr skerðingum. Það hefur verið ráðist í breytingar á skerðingum milli bótaflokka til þess að auka tekjur hinna tekjulægstu í hópi örorkulífeyrisþega. Skattalækkanir voru þannig útfærðar að þær nýttust best hinum tekjulægri og sömuleiðis var ráðist í eingreiðslur í tengslum við Covid. Hvað varðar hina tekjulægri hópa hafa barnabætur hækkað og þeirri hækkun hefur fyrst og fremst verið beint til tekjulægstu hópanna. Atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar um 35%. Sömuleiðis hefur stuðningur verið aukinn við atvinnuleitendur sem eru með börn á framfæri. En þetta snýst um fortíðina. Þetta snýst um það sem við höfum verið að gera. Ég segi það hér til að færa fyrir því rök að við höfum verið að horfa sérstaklega til tekjulægstu hópanna og einmitt reynt að byggja aðgerðir okkar á þeim gögnum sem við höfum yfir að ráða um raunverulegar ráðstöfunartekjur ólíkra hópa.

Hv. þingmaður spyr: Sé ég fyrir mér að þetta verði óbreytt staða út næsta fjármálaáætlunartímabil? Því er til að svara að þessi fjármálaáætlun er síðasta áætlun þessa kjörtímabils og hún er samin á miklum óvissutímum, eins og ég fór yfir áðan. Ég tel að það væri mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn, undir lok kjörtímabils, væri að leggja fram miklar framtíðaraðgerðir inn á næsta kjörtímabil sem hugsanlega verður einhverra annarra að útfæra. En ég vil segja það við hv. þingmann að ég held við séum sammála um að þessu verkefni er ekki lokið, (Forseti hringir.) þ.e. að styðja við verst stöddu og tekjulægstu hópana í samfélaginu. Því er ekki lokið með þeirri stöðu sem nú er uppi.