151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir svörin, en ég verð bara að vera gersamlega og innilega ósammála að því leyti að við erum að tala um hóp þar sem jú, eitt skattþrep var lækkað, en á sama tíma var persónuafsláttur líka lækkaður. Það gerði að verkum að þeir sem verst höfðu það fengu ekki eins mikið og þeir hefðu átt að fá. Á sama tíma hefur ekki verið gert það sem þarf að gera, að draga úr skerðingum, vegna þess að keðjuverkandi skerðingar valda því oft að þeir sem mest þurfa á hækkunum að halda verða aftur fyrir skerðingum, á sérstöku húsaleigubótunum og húsaleigubótunum.

Þetta er ómannúðlegt kerfi. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég næ því ekki hvers vegna í ósköpunum við erum ekki löngu búin að gera eitthvað fyrir verst setta hópinn vegna þess að þetta er, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur margítrekað, svo lítill hópur, en samt segir hann að það séu ekki til peningar til að taka á vanda þessa litla hóps. Það er aldrei hægt að finna þessa peninga. En það virðist vera hægt að finna peninga ef það þarf að bjarga einhverjum öðrum í þessu samfélagi. Það hlýtur að vera hægt að finna peninga til að grípa þennan hóp sem verst hefur það í kerfinu. Við erum með fólk sem fær búsetuskerðingar, fólk sem lifir á rétt rúmum 200.000 kr. eftir skatta. Það þarf ekki að segja mér að ekki sé hægt að ná þessum hópi upp fyrir fátæktarmörk. Að vera með rétt yfir 200.000 kr. útborgað eftir skatt í dag er að vera í sárafátækt. Og þó að fólk fari upp í 300.000 kr. er það enn í fátækt miðað við þá útreikninga sem menn nota í alþjóðlegu samhengi, miðað við þjóðartekjur, um hvað útborguð laun þurfa að vera til þess að fólk sé yfir fátæktarmörkum.