151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:38]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér síðustu fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem samanstendur af Framsóknarflokki, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Sjálfstæðisflokki. Það eru auðvitað ákveðin tímamót þegar ríkisstjórn skilar af sér búi og við þær aðstæður sem nú eru uppi er það gert á miklum óvissutímum vegna þess heimsfaraldurs sem nú geisar og eðlilega hefur hann litað umræður um þetta mikilvæga mál hér í dag. Ég vil þó segja í upphafi að þegar maður horfir yfir þetta kjörtímabil er það auðvitað svo á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins að verkefnunum er ekki lokið. Við erum hins vegar á margan hátt að skila mjög góðu búi.

Ef við förum yfir helstu málefnasvið sem heyra undir félagsmálaráðuneytið hefur í öllum tilvikum verið blásið verulega í á kjörtímabilinu. Ég ætla að rekja það fyrir ykkur í tölulegu samhengi af því að umræðan hér snýst oft um að það sé bara ekkert búið að gera. Það er auðvitað ekki rétt.

Málefnasvið um örorku og fatlað fólk var í 54 milljörðum árið 2017. Árið 2021 er það komið í 83 milljarða. Málaflokkur aldraðra var í 67 milljörðum en er kominn í 93 milljarða. Málefni fjölskyldna er komið úr 30 milljörðum árið 2017 í 47 milljarða. Húsnæðismálin eins og þau eru fram sett í fjármálaáætlun standa að einhverju leyti í stað en það stafar líka af því að við kynntum aðgerð, sem er ekki tekin hér inn í, sem kallast hlutdeildarlán þar sem ríkið lánar vaxtalaust lán til íbúðakaupa fyrir ákveðinn hóp. Auðvitað er það stuðningur þó að það komi ekki með beinum hætti inn í fjárlagafrumvarp þegar við erum að lána vaxtalaust með þessum hætti. En samanlagt hafa þeir málaflokkar sem heyra undir félagsmálaráðuneytið hækkað á ársgrunni frá árunum 2017–2021 um 70 milljarða. Á hverju einasta ári rennur 70 milljörðum meira af almannafé til málefna sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Af þessu er ég gríðarlega stoltur og af þeirri ríkisstjórn sem hefur stigið þessi skref.

Við höfum stigið skref þegar kemur að því að draga úr skerðingum. Við höfum stigið skref þegar kemur að því að bæta stöðu tekjulægstu hópa aldraðra. Við höfum stigið myndarleg skref þegar kemur að barnafjölskyldum eins og með lengingu fæðingarorlofs og ýmsum aðgerðum sem lúta að málefnum barna og barnafjölskyldna. Allt þetta telur í þessari 70 milljarða aukningu.

En það er auðvitað þannig að það er einn liður sem hefur hækkað núna síðustu tvö árin sem sá sem hér stendur er ekki jafn stoltur af. Það er vinnumarkaðsliðurinn eða atvinnuleysisbætur. Þessi heimsfaraldur hefur haft þau áhrif að við höfum þurft að greiða miklu meira í atvinnuleysisbætur en við gerðum á fyrstu árum kjörtímabilsins. En það er m.a. vegna þess að við viljum að kerfin grípi fólkið okkar, og það hefur sýnt sig að þau gera það með mjög markvissum hætti. Þau ná að grípa fólkið okkar og þá sem eru að ganga í gegnum þennan heimsfaraldur. En það er líka þannig, þegar við ræðum síðan fjármálaáætlun, að það mun ráðast fyrst og síðast af því hvernig okkur gengur að minnka akkúrat þennan lið, hvernig okkur gengur að minnka atvinnuleysið, þegar kemur að því að verja aðra þætti velferðarkerfisins. Það er grundvallaratriði að okkur takist að koma ferðaþjónustunni af stað á nýjan leik, koma atvinnulífinu af stað eftir þennan heimsfaraldur. Ríkisstjórnin hefur verið að stíga markviss skref í því, bæði með fjárfestingaráætlunum, fjárfestingum ýmiss konar, en líka með beinum vinnumarkaðsaðgerðum eins og þeirri sem við kynntum nýverið og er ætlað að geti skapað um 7.000 störf. Það verður verkefni næstu ára að verja velferðina og lykillinn í því að verja velferðina og halda þeirri stöðu sem þessi ríkisstjórn er búin að byggja upp og bæta í, stendur og fellur með því hvernig okkur gengur að koma atvinnulífinu af stað og draga úr atvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Ég horfi stoltur á þessi fjögur ár sem hafa liðið. Við höfum gert gríðarlega stóra hluti og ég vonast svo sannarlega til þess að við getum haldið áfram á sömu braut.