151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða fjármálaáætlun. Mig langar að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um álit hans á frjálsum handfæraveiðum, hvort hann sé ekki sammála um að það væri góð framtíðarsýn. Ef við tökum líka sérstaklega stöðuna eins og hún er í dag, boð og bönn um að ekki megi veiða nema á ákveðnum dögum, þá er það stórhættulegt vegna þess að það segir sig sjálft að þeir sem eru á handfæraveiðum þurfa að fara eftir veðri og vindum en ekki dögum. Síðan erum við með brottkast og þurfum að koma í veg fyrir það. En væri ekki kjörið að setja auknar veiðiheimildir í frjálsar handfæraveiðar og efla þannig litlu byggðakjarnana allt í kringum landið? Ekki veitir af.

Telur ráðherra að rekstur Hafrannsóknastofnunar sé í góðum farvegi? Á þessu kjörtímabili höfum við ítrekað fengið fregnir um brotalamir í eftirliti og þörf á frekari fjármagni. Þá var reyndum starfsmönnum sagt upp án gildra ástæðna og það afsakað með orðum eins og skilvirkni, hagkvæmni. Ég tel að slík orð séu notuð sem afsökun fyrir niðurskurði. Ég spyr hvort starfsemin sé nægilega fjármögnuð til að hafa eftirlit með þjóðarauðlindinni. Er þetta nógu gott kerfi sem við erum með og virkar það? Ef ekki, hvað þarf þá að gera? Þarf ekki að koma þessum hlutum í lag og þá sérstaklega til að aðstoða við það sem ég spurði um í upphafi, þ.e. við frjálsar handfæraveiðar og að efla litlu byggðakjarnana?