151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

framlög til loftslagsmála.

[13:18]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Loftslagsmálin eru eitt mikilvægasta mál stjórnmálanna nú og næstu áratugi. Til þess að þjóðum heims takist að koma í veg fyrir hamfarahlýnun með hrikalegum afleiðingum þurfa allir að leggjast á árarnar. Það þarf skýr markmið og auknar fjárveitingar, kraft í grænar fjárfestingar. Ísland má ekki láta sitt eftir liggja og ríkisstjórnin má ekki leggja árar í bát.

Í stað þess að sýna raunverulegan metnað í loftslagsmálunum í fjármálaáætlun til næstu fimm ára grípur ríkisstjórnin til talnaleikfimi og reiknikúnsta til að hífa upp framlögin. Það er óneitanlega dálítið sorglegt að í stað sýnilegra aðgerða gegn loftslagsvánni skulum við sjá framlög til loftslagsmála lækka, herra forseti, lækka á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Samdrátturinn í framlögum til loftslagsmála skýrist m.a. af minni skattalegum ívilnunum sem eiga að dragast saman ár frá ári til 2026, á tímum þar sem við þurfum stórauknar grænar fjárfestingar og ríkisvaldið þarf að draga vagninn. Það þarf að hraða borgarlínunni og öðrum grænum samgöngubótum, setja aukinn kraft í orkuskiptin og hringrásarhagkerfið, raunverulegar upphæðir í tæknilausnir og búa þannig um hnútana að við getum staðið stolt fyrir okkar málum á alþjóðavettvangi, ekki út af fornri frægð og lagningu hitaveitunnar 1937 heldur með nýjum aðgerðum sem standast alþjóðlega samkeppni.

Í ljósi alls þessa vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hann sé sáttur við að framlögin til loftslagsmála lækki eftir því sem líður á tíma fjármálaáætlunar og hvort hann sé ekki tilbúinn að berjast með okkur hér á Alþingi sem viljum sjá framlög til loftslagsmála hækka, til að sýna skýran metnað í þeim.