151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

framlög til loftslagsmála.

[13:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég held að við ættum að forðast alla upplýsingaóreiðu þegar kemur að loftslagsmálunum og umhverfismálunum. Því miður hafa reikningskúnstir og talnaleikfimi verið notuð til að láta málin líta betur út en þau standa raunverulega, m.a. eru tekin saman framlög næstu tíu ára í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin til að þetta líti betur út. En það er margt gott í upptalningu hæstv. ráðherra og ég efast ekki eitt augnablik um að hann vilji gera betur. En betur má ef duga skal. Landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis telja að öllum líkindum ekki inn í skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Og aðeins varðandi orkuskiptin: Viðbótarframlög til loftslagsmála á tímabilinu í fjármálaáætluninni fara líka lækkandi.

Metnaðurinn er ekki nægur, herra forseti. Við þurfum að bæta verulega við fjármuni. Í gegnum aukin framlög til loftslagsmála og raunverulegar aðgerðir (Forseti hringir.) til að takast á við hamfarahlýnun er hægt að skapa ótal tækifæri, eins og hæstv. ráðherra veit, til vaxtar og sóknar fyrir Íslendinga; samgöngubætur, (Forseti hringir.) almenningssamgöngur, orkuskipti og fleira. Ég mun ekki liggja á liði mínu til að aðstoða við (Forseti hringir.) þá vinnu.