151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:22]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að nýsköpun, tækni og vísindi skipta gríðarlega miklu máli fyrir okkar framtíð, og ég veit að við hæstv. ráðherra erum hjartanlega sammála um það. Ég vil byrja á því að segja að það hefur mjög margt gott verið gert í þessum málaflokki á síðustu árum, það á að viðurkenna það og hrósa fyrir það. Það sem ég hef áhyggjur af er að okkur skorti úthald og raunverulega langtímahugsun í þessum efnum. Ég hef margítrekað sagt það og átt orðastað við hæstv. ráðherra um það. Því verður ekki á móti mælt að í fyrirliggjandi áætlun, eins og hún er sett upp, liggur fyrir að aftur mun draga úr fjármagni sem rennur í þennan málaflokk. Það er ekki gott vegna þess að það skiptir svo miklu máli að hafa fyrirsjáanleikann.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er mikil gróska akkúrat núna, og af hverju skyldi það vera? Gæti það verið vegna þess að þessi innspýting hefur verið sett inn? Hvað gerist þá ef hún er tekin í burtu? Er ekki einmitt búið að sanna að innspýtingin skiptir máli og þess vegna eigum við að framlengja þau góðu verkefni sem ráðist hefur verið í, sem er t.d. hækkun á þaki og hlutfalli endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar? Það tekur varla langan tíma að finna út úr því hvort það er að skila árangri. Annað sem við í Viðreisn höfum lagt til er að veita lífeyrissjóðunum varanlega heimild til að fjárfesta í svokölluðum vísisjóðum, sem ég held að skipti líka gríðarlega miklu máli. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að menn hafi framtíðarsýn til langs tíma, það er það sem allir eru að kalla eftir.