151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sýnir sig einmitt með t.d. samgönguáætlun þegar við þurfum að grípa til aðgerða, og þegar við höfum gert góðar áætlanir, þá er það hægt. Þetta þarf að gera á fleiri sviðum og hefur svo sem verið reynt að vinna að á fleiri sviðum, sem er mjög jákvætt. En betur má ef duga skal.

Mig langar til að fara aðeins yfir það sem hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni um jöfnunarsjóðinn. Hann talaði um 4 milljarða á þessum fimm árum, uppsafnaða aukalega í jöfnunarsjóði. Er það vegna einhverra breytinga á því kerfi? Eða er þetta ekki bara uppreikningur? Ef þetta er bara uppreikningur, af hverju er hægt að tala um að það séu aukin framlög hins opinbera til jöfnunarsjóðs? Það er bara sama hlutfall og áður. Þetta er eins og með hæstv. félags- og barnamálaráðherra í gær sem hreykti sér af og talaði um 60–70 milljarða sem hefðu bæst í málaflokkana en mest af því var kerfislægur vöxtur. Af hverju er verið að hreykja sér af því þegar það er bara eðlileg og náttúruleg aukning í þeim málaflokki? Við þurfum krefjast þess af ráðherrum að þeir séu dálítið nákvæmari hvað þetta varðar. Það er ekki bara þingið sem á það skilið heldur á fólkið sem er að hlusta það skilið að upplýsingarnar séu réttar og nákvæmar og við séum ekki að tvítelja hlutina svona fram og til baka. Þá getum við alla vega tekið góðar og upplýstar ákvarðanir um það hvernig við förum með almannafé og náum þeim markmiðum sem við viljum ná. Allir flokkar vissu fyrir kosningar af uppbyggingarþörfinni og innviðauppbyggingunni sem var nauðsynleg. Það er m.a. þess vegna sem þessi málaflokkur hefur verið svo vel fjármagnaður á kjörtímabilinu, það voru allir flokkar sammála um það og af því að áætlanirnar voru til. Ef það hefðu verið til betri áætlanir í öðrum málaflokkum eins og t.d. í loftslagsmálum þá efast ég ekki um að þangað hefðu líka farið meiri fjármunir, af því að það hefði verið sýnt betur fram á að þörf væri á þeim og hver áhrifin af því væru.