151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Á sínum tíma þegar ég var mest að skoða heilbrigðismálin var fráflæðisvandinn á Landspítalanum að einum þriðja til kominn vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Ég man ekki nákvæmlega tölurnar. En í samanburði við það hver staðan er í dag varðandi hjúkrunarrýmin, og svo bara almennt varðandi aðbúnað eldri borgara sem þurfa að vera á Landakoti o.s.frv., spyr ég hvernig þessu háttar, bæði almennt inn í framtíðina en líka í ljósi þess að það gæti komið bakslag. Það er ein sviðsmynd varðandi veiruna að hún stökkbreytist það mikið að virkni bóluefna minnki. Það getur haft raunveruleg áhrif á líf og heilsu eldri borgara í landinu. Það er einn þátturinn. Hinn þátturinn varðar þær sviðsmyndir sem heilbrigðisyfirvöld, sóttvarnayfirvöld, hafa verið að setja upp um þróun faraldursins, og hvaða áhrif þær hafa haft á þessa fjármálaáætlun. Gert er ráð fyrir því að til þess að fjármálaáætlun standist verði í kringum 700.000 ferðamenn að koma hingað á þessu ári og 1,5 milljónir á næsta ári, ef ég man það rétt. Tölurnar eru alla vega nokkurn veginn þannig. Ef þetta stenst þá stenst sá þáttur fjármálaáætlunarinnar en það gæti komið bakslag varðandi möguleikann á því að opna landið, varðandi það hvenær við náum að bólusetja og varðandi það hver ferðaviljinn verður í heiminum o.s.frv., sér í lagi í ljósi þess að nú eru að koma ný afbrigði sem eru meira smitandi. Þá næst hjarðónæmið ekki jafn hátt upp, veikindin verða alvarlegri, yngra fólk veikist og það hefur áhrif á samfélagið í heild. Að hvaða leyti hafa þær sviðsmyndir, sem sóttvarnayfirvöld hafa hjá sér, haft áhrif á fjármálaáætlun, sér í lagi þegar kemur að þeim þætti sem á að halda þessu á lofti, sem eru 700.000 túristar í ár og 1,5 milljónir á næsta ári?