151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun fram til 2026. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hún deili ekki með mér áhyggjum af biðlistum sem nú þegar eru og sem gætu sennilega, út frá nýjustu sóttvarnareglum, lengst töluvert, sennilega flestallir biðlistar sem eru nú þegar allt of langir. Ég spyr hvort hún sjái til framtíðar að hægt verði að taka á biðlistum, sérstaklega biðlistum til að komast á biðlista, t.d. vegna greiningar barna, það þarf fyrst að komast í greininguna og síðan á biðlista eftir því að komast í meðferð. Þetta gildir svo sem líka um eldri borgara sem eru í svipaðri stöðu upp á greiningar og að komast síðan í meðferð. Það segir sig sjálft að á meðan þetta ástand varir verður meira álag á t.d. sjúkraþjálfara. Hver er lausnin á því? Er því máli ýtt fram í framtíðina eða er virkilega verið að leysa það þannig að allir geti verið sáttir? Í því samhengi er auðvitað líka um að ræða talmeinafræðinga. Hefur hún ekki svolitlar áhyggjur af því að þetta kerfi sem við höfum verið með í Covid, að loka og opna, loka og opna, bitni illa á fólki sem er í endurhæfingu, fer í sund og alls konar? Það hlýtur að valda áhyggjum hvaða afleiðingar þetta hefur á heilbrigðiskerfið allt. Er eitthvað búið að kortleggja það hversu alvarlegt þetta verður og hvernig verður brugðist við því?