151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:22]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að tala aðeins við hæstv. utanríkisráðherra um Evrópusambandið. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um afstöðu hans til Evrópusambandsins því að mér er kunnugt (Gripið fram í.) um að hann myndi vilja ganga í Evrópusambandið bara til þess að geta gengið úr því strax aftur, haft þá ánægju. Ég ætla heldur ekki að ræða við hæstv. ráðherra um þær furðulegu tröllasögur sem bárust frá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum um meint bann á bóluefnaútflutningi frá Evrópusambandinu og aðrir ráðherrar, ábyrgir hæstv. ráðherrar, hafa ekki haft undan að bera til baka. Miðað við öll þessi læti kemur hins vegar svolítið á óvart að í þessari fjármálaáætlun er mjög lítið talað um Evrópusambandið og tengsl okkar við Evrópusambandið en þeim mun meira um varnarmál og Bandaríkin í tengslum við það. Evrópusambandið er einu sinni nefnt og jú, það er svolítið fjallað um EES-samninginn að vísu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi allra þessara samskipta og í ljósi þess að við eftirlátum Svíum núna að gæta hagsmuna okkar í þessu bandalagi, eftirlátum Norðmönnum og síðan Svíum að gæta hagsmuna okkar: Er ekki kominn tími til þess á næstu fjárlögum verði settur alvörumetnaður í að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í Brussel?