151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:57]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og góðar spurningar. Við höfum náttúrlega sent mjög skýr skilaboð til vina okkar í Evrópusambandinu þegar kemur að þessari reglugerð. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum. Hv. þingmaður vísaði hér til þriggja landa og við erum komin svolítið, í það minnsta, út fyrir fjármálaáætlun. En það er allt í lagi.

Alveg sama hvað okkur finnst þá getum við ekki litið fram hjá því þegar við hugsum um lágmörkun smita, álag á heilbrigðiskerfið og hvað við hefðum getað notið mikils frelsis, að það hefur gengið mjög vel hjá okkur Íslendingum. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi verið í samskiptum við kollega mína. Ég hef verið það og það taka allir eftir því hvað það hefur gengið vel hjá okkur. Við sjáum núna allra handa aðgerðir, m.a. útgöngubann og aðra slíka hluti, vegna þess að smitin eru í vexti í þessum löndum. Þar eru allt aðrar tölur en við sjáum hér hjá okkur. Þessir hlutir eru ekki beinlínis á mínu borði þótt allt tengist, en ég hef hins vegar hitt utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, hann kom hér í heimsókn og ég fór víða með honum og átti með honum mjög góða fundi. Við eigum gott með að vinna með Nýsjálendingum en eini gallinn er að þeir eru alveg svakalega langt í burtu frá okkur. Að öðru leyti eru miklir möguleikar í samstarfi milli Íslands og Nýja-Sjálands. Ísrael fór náttúrlega ákveðna leið varðandi bólusetningar, en Bretar hafa farið í gegnum mjög erfiða tíma þótt þeir sjái kannski ljósið núna af því að þeim hefur gengið vel með bólusetningar og lagt mikið upp úr þeim. Ég held að verkefnið hjá okkur núna sé að fara í gegnum storminn. En aðalatriðið er að til að vinna okkur út úr þessu eins og staðan er núna þá lítur ekki út fyrir að lausnin sé önnur en bólusetningar. Verkefnið er þá að reyna að vinna það eins hratt eins og mögulegt er.