151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:10]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú dregur að lokum fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun sem hefur staðið í tvo daga, að mörgu leyti mjög góð umræða sem ég ætla að hrósa þingmönnum fyrir að taka þátt í. Það form sem við höfum sett hér upp í umræðu um fjármálaáætlun á undanförnum árum held ég að hafi reynst ágætlega. En það sem við fjöllum um er kannski óhefðbundin fjármálaáætlun að þessu sinni þar sem einungis eru réttir 96 dagar síðan við samþykktum síðast fjármálaáætlun í þinginu þannig að þungamiðja okkar umræðu er greinargerð fjármálaáætlunar sem birtist í því riti sem hefur fylgt þessari umræðu og verið dreift á Alþingi. Í því riti má vel sjá og lesa um efnahagsmál og efnahagsþróun undanfarins árs og mér finnst kannski mesta breytingin á undanförnum árum vera sú hvað þingið er farið að ræða efnahagsmál og efnahagshorfur miklu oftar og meira en áður var.

Greinargerðin geymir ágætan vitnisburð um það að sterk og tímanleg viðbrögð við skyndilegri kreppu hafa skilað árangri. Hún geymir ágætan vitnisburð um að endurskoðun fjármálastefnu sem samþykkt var hér í haust rúmar vel þá fjármálaáætlun sem nú er lögð fram á þessum dögum á Alþingi og það var ekki sjálfgefið í haust þegar við vorum að ræða nýja fjármálastefnu og fjármálaáætlun í framhaldi af því að svo myndi verða. Ríkisfjármálastefna og peningamálastefna styðja vel hvor við aðra og þessar stefnur þurfa að vinna vel saman, bæði til skemmri og lengri tíma. Þær þurfa að vera samhentar í því að gefa í þegar þarf að örva en líka kunna að sleppa inngjöfinni þegar úr rætist. Það er þessi fína lína þar á milli sem er okkur oft erfitt að rata inn á. En takist okkur það munum við eiga hér bjarta framtíð og það skiptir miklu máli í svo mörgu tilliti, þótt ég nefni aðeins einn þátt þess sem eru kannski fyrst og fremst vaxta- og lánakjör í þessu landi og ekki síst vaxta- og lánakjör fyrir ríkissjóð. En stóra málið er hve lengi áhrifa faraldursins gætir og hvernig efnahagslíf rís upp að honum liðnum. Undir það verðum við að búa okkur. Við verðum að hafa sveigjanleika og við verðum að hafa þor.

Við höfum aukið útgjöld til okkar helstu kerfa og viðfangsefna á undanförnum árum og við erum að verja þau útgjöld í fjármálaáætluninni sem við ræðum í dag. Við höfum aukið útgjöld verulega til heilbrigðismála og menntamála. Við gripum til fjárfestinga með sérstöku fjáraukalagafrumvarpi strax í fyrravor og síðan urðu fjáraukarnir á síðasta ári alls fimm talsins. Við höfum ráðist í arðbærar fjárfestingar sem byggja undir framtíðarhagvöxt okkar til lengri tíma. Við höfum fjárfest í rannsóknum og nýsköpun sem við erum ekki í nokkrum vafa um að varða veginn til bættra lífskjara og búa til eftirsóknarverð tækifæri. Fjármálaáætlunin innifelur úrbætur í opinberum rekstri sem stöðugt verður að huga að. Við verðum stöðugt að huga að því hvernig við nýtum fjármuni fólksins í landinu. Fjármálaáætlunin birtir okkur sýn á það hvernig við ætlum aftur að ná tökum á ríkisfjármálunum, stöðva skuldasöfnun og búa þannig samfélagssjóð okkar undir að vera í færum til að bregðast við og geyma þau verkfæri sem verður að grípa til, því að í framtíðinni munu vafalaust bíða okkar óvænt áföll sem við verðum að hafa styrk til að mæta. Það bíður okkar í hv. fjárlaganefnd að fara yfir forsendur og spár og meta þá vísa sem við styðjumst við í ákvörðunum okkar.

Ég trúi því að á þessu ári séum við á lokaspretti, ekki bara á lokaspretti kjörtímabils heldur á því skeiði að vinna bug á þessari óvæntu kreppu. Verkefni okkar er að verja innviði okkar, verja atvinnutækin sem munu rísa, eiga hér viðspyrnu sem fjölgar á ný störfum, vinna bug á atvinnuleysi, hefja aftur verðmætasköpun til að við getum byggt upp eftirsóknarverð lífskjör og tækifæri og skapa fólkinu okkar tækifæri sem það á skilið.