151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn hvort okkur hafi boðist kaup utan þess Evrópusamstarfs sem við höfum verið þátttakendur í. Það hafa auðvitað fjöldamargir aðilar komið að máli við íslensk stjórnvöld og það er skylda okkar að elta hvern einasta þráð sem til okkar kemur og kanna hvað er á bak við hann. Hins vegar er það þannig varðandi Spútnik að við gætum samið sjálf eða í samstarfi við til að mynda Norðurlöndin en öryggi og gæði eru tryggð í gegnum Evrópsku lyfjastofnunina. Við höfum enn þá ekki vakið máls á því að slaka á þeim kröfum sem við gerum fyrir íslenskt samfélag.

Hvað varðar síðan að seilast í bóluefni sem eru á bið hjá nágrannaþjóðunum vegna einhverrar yfirferðar þar, eins og gildir um Dani og AstraZeneca, þá finnst mér það ekki koma til álita. Ég tel að hvert ríki hafi auðvitað sjálfdæmi um það hvernig þau haga skipulagi bólusetninga sinna. Við höfum tekið þá stefnu hér að nýta AstraZeneca, hefja nýtingu á því núna fyrir 70 ára og eldri og síðan áfram með yngra en 70 ára, enda hefur ábending Evrópusambandsins verið um að það sé óhætt að nota það fyrir 65 ára og eldri og við munum gera það. Við erum með nóg af AstraZeneca í húsi til að halda okkar plani hvað varðar þennan hóp og við getum gert ráð fyrir því að 70 ára og eldri hafi fengið bóluefni viku eftir páska.