151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tók náttúrlega þátt í vinnunni að því er varðar uppfærslu og endurskoðun á sóttvarnalögum og við höfum lagt mjög mikla áherslu á að fara eins mildilega leið og hægt er og beita meðalhófi í öllum ákvörðunum okkar. Við leggjum áherslu á að hvetja fólk til að sýna ábyrgð. Upplýsingagjöf hefur verið mjög mikil og góð á landamærum. Hv. þingmaður vísar hér til Bretlands um bann við ferðalögum. Þar er um að ræða lagaheimild til að banna ferðalög. Ég myndi ekki leggja það til að banna ferðalög. Ég hef ekki gert það hingað til, en hins vegar hef ég tekið undir þær tillögur sóttvarnalæknis að það beri að vera sóttkví í sóttvarnahúsi, komi maður frá sérstaklega alvarlega stöddum svæðum að því er varðar útbreiðslu faraldursins.