151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra virðir mér það til vorkunnar að horfa fram á veginn og trúa því að þetta séu verkefni sem við munum þurfa að taka á, þ.e. að við munum þurfa að horfa til þess fram í tímann með hvaða hætti við þurfum að halda áfram að bólusetja við þessum vágesti, eða a.m.k. fylgjast með því hvort að mótefnasvörunin haldi og hvort áfram verði nægilega kröftug svörun, fyrir utan það sem hæstv. ráðherra nefndi með hvaða afbrigði verður við að eiga. Ráðherrann nefndi einmitt að auðvitað þyrftum við að skoða með opin augun hvaða fjármunum við sem samfélag þurfum að verja í að tryggja áframhaldandi ónæmi og með hvaða hætti við gerum það. Þess vegna langar mig að inna ráðherra eftir því hvort henni sé kunnugt um að hér innan lands sé verið að fylgjast með hver hreyfingin á mótefnasvari er hjá þeim annars vegar sem hafa sýkst og hins vegar þeim sem hafa verið bólusettir og hvort hæstv. ráðherra hefði vilja til að beita sér fyrir því að slíkar rannsóknir færu fram hér innan lands. Hér er um mjög mikilvæga þekkingu að ræða sem þarf að vera til í samfélaginu og hún getur hjálpað okkur að meta með hvaða hætti við þurfum að ráðstafa fjármunum fram í tímann því að hvað sem okkur finnst um núverandi faraldur er afar líklegt að slíkar ógnir kunni að koma upp aftur og þá þurfum við að vera tilbúin.