151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég var einmitt að hugsa þetta áðan og hef ekki svar við því. Þegar þessi tilraun var gerð í janúar til að horfa betur fram í tímann og veita margumbeðinn fyrirsjáanleika út í samfélagið þá voru skilmerki og ráðstafanir á landamærum listaðar upp miðað við stöðuna eins og hún var þá. Ég held að okkur sé öllum ljóst að ef við tækjum litakóðunarkerfið nákvæmlega eins og það var þá og settum það inn í daginn í dag þá þyrftum við að uppfæra það vegna þess að við erum núna með aðrar ráðstafanir en við vorum með þá, til að mynda skyldu um neikvætt PCR-próf á landamærunum sem núna allir þurfa að sæta, sem var ekki partur af sýninni í janúar. Ég held því að það sé alveg ljóst að hvernig sem allt veltist og fer þá þarf að endurskoða og uppfæra þær takmarkanir sem hver og einn hópur býr við á landamærum Íslands.