151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst í sambandi við það sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vísa til, þegar hann er að spyrja um 70 plús og 65 plús, að það sé umræðan um AstraZeneca, ekki satt? (AKÁ: Jú.) Ástæðan fyrir því að einhvers staðar er talað um 65 og annars staðar um 70 er sú að bólusetningarhópur innan Evrópusambandsins mælir með því að efnið sé notað fyrir 65 ára og eldri, enda sé það óhætt. Við höfum ákveðið að byrja að forgangsraða efninu fyrir 70 ára og eldri og síðan 65 ára og eldri. Það er ástæðan fyrir því að þetta kann að vera eitthvað misvísandi.

Við gerum ráð fyrir að það verði búið að bólusetja alla yfir 16 ára í lok júlí. Það eru þær tölur sem við höfum verið með núna.

Varðandi Lyfjastofnun getur hún sjálf gefið út neyðarleyfi eða gefið út markaðsleyfi á grundvelli Lyfjastofnunar Evrópu.