151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Forgangsröðun í bólusetningar verður alltaf að byggja á reglugerðinni sem liggur fyrir en þar til viðbótar á læknisfræðilegu mati að því er varðar hvaða bóluefni er rétt að nota fyrir hvaða hópa. Það verður í raun og veru alltaf að vera þannig. Varðandi undirliggjandi sjúkdóma o.s.frv. þá eru auðvitað fjölþættir sjúkdómar þar til umfjöllunar og þetta er bara hluti af mati heilbrigðisþjónustunnar á hverjum stað.

Það er rétt sem fram hefur komið varðandi smit og tengingu við gosstöðvarnar. Það sem verið er að gera, skilst mér, núna er að rætt hefur verið um grímunotkun og rætt um að vera með gönguleið bara í eina átt o.s.frv., þannig að það er verið að reyna að ná utan um þetta á vettvangi almannavarna og lögreglunnar með hliðsjón af áhættu að því er varðar sóttvarnir.