151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því að hv. þingmaður tekur mjög djúpt í árinni varðandi það að við þurfum alltaf að ganga lengst. Ég held að það sé nú ekki rétt. En hins vegar legg ég hér fram mál sem ég held að, nákvæmlega eins og um það er búið hér, sé betra fyrir heilsu þeirra sem nota vímuefni með þessum hætti. Við skerum okkur vissulega úr, en þær áherslur sem eru í frumvarpinu koma frá Rauða krossinum vegna þess að Rauði krossinn hefur verið að vinna með þessum hópi og er mjög meðvitaður um þá heilbrigðisvá sem þessi viðkvæmi hópur býr við. Ég held að það sé augljóst að það að gera efni upptæk á þessum skala myndi að öllum líkindum auka skaðsemina fyrir þann sem efnanna neytir vegna þess að viðkomandi þarf þá að afla sér efnanna aftur og er þar með aftur útsettur fyrir enn frekari skaða. Það er í raun og veru skaðaminnkunarhugmyndafræðin sem leiðir okkur til þessarar tillögu hér.