151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið, sem mér fannst nú svolítið sérstakt. Ég hefði nú talið að það væri eðlilegt að við myndum horfa til nágrannalanda okkar hvað þetta varðar ef á annað borð á að samþykkja þetta frumvarp, sem ég er reyndar á móti.

Það sem ég vildi spyrja um í síðara andsvari lýtur að aðstandendum þeirra sem neyta fíkniefna, fjölskyldunum. Það eru fjölskyldurnar sem eru oftast á móti afglæpavæðingu fíkniefna. Það hefur komið fram í rannsóknum hér á landi, m.a. við Háskólann á Akureyri. Aðstandendurnir vilja að áfram verði hægt að refsa öllum sem koma að vímuefnum, hvort sem það er varðandi framboðið eða eftirspurnina, því að þeir telja að það muni koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á efnunum.

Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvað hún vilji segja við þessar fjölskyldur sem eiga börn, einstaklinga, sem neyta fíkniefna. Þessar fjölskyldur eru sá hópur sem er mest á móti afglæpavæðingu og stendur næst vandanum. Þessi hópur er á móti þessu frumvarpi. Hvað vill hæstv. ráðherra segja við þessar fjölskyldur?