151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og tek undir mikilvægi þess að snúa umræðunni svolítið við. Við eigum ekki að tala um glæpamenn, um er að ræða fólk af öllum þjóðfélagsstigum og gerðum sem er að fást við þennan vanda og við þurfum að snúa umræðunni við. Það sem ég vildi koma að í síðara andsvari varðar skammtastærðina. Hér er talað um að ráðherra skuli setja reglugerð um magn og annað slíkt. Þá veltir maður fyrir sér hvað sé hér um að ræða. Ég hef heyrt frá lögreglunni að hún óttist að vita ekki hvað hún er með í höndunum, hvernig gangi að vinna með þetta. Neytandi er kannski tekinn með ákveðna skammtastærð þennan daginn og strax næsta dag er hann aftur tekinn með sama skammt. Hvernig er þetta hugsað og út frá hvaða hugmyndafræði á að vinna þessa reglugerð? Er þetta eitthvað sem við tökum upp frá hinum Norðurlöndunum eða er verið að vinna að reglugerð innan lögreglunnar og þeirra aðila sem þekkja þessi mál mjög vel til þess að ekki komi til árekstra strax og þetta verður tilbúið?