151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í máli hv. þingmanns þá liggur skilgreining á neysluskammti ekki fyrir, en gert er ráð fyrir ítarlegu samráði við þau sem eiga hagsmuna að gæta, eins og það er orðað í frumvarpinu, sem eru lögregla og ríkissaksóknari, en ekki síður þau sem nota vímuefni sjálf. Það liggja fyrir nokkrar fyrirmyndir, m.a. frá Portúgal, eins og hér er rætt, frá Noregi, frá Oregon-ríki í Bandaríkjunum, sem sýnir að hægt er að ná víðtækri sátt um regluverk um neysluskammta. En þá verður að halda því til haga að við tökum ekki regluverk af þessu tagi beinlínis inn frá öðrum samfélögum vegna þess að notkun vímuefna á Íslandi er, segir fólk sem best þekkir til, að sumu leyti ólík því sem annars staðar gerist í heiminum. Til dæmis má geta þess að notkun rítalíns í æð er frekar algeng í þessum hópi en fátíð í löndunum í kringum okkur. Það liggja engin vísindaleg rök á bak við það eða rannsóknir á því, það er bara svona, og þess vegna þurfum við að taka mið af því. Í Portúgal, Oregon, og það hefur verið lagt til í Noregi, er miðað við tíu daga viðmið. Þar er í raun og veru enginn tiltekinn grundvöllur sem liggur því að baki, en það þykir nauðsynlegt að kveðið sé á um þetta í reglugerð vegna þess að þessi markaður er síbreytilegur og brýnt að geta brugðist við og bætt inn efnum eða tekið út eftir atvikum og breytt stærðum án þess að til lagabreytinga þurfi að koma. Þessi hópur sem hefur þessa hagsmuni mun fá það hlutverk að skilgreina neysluskammta og sú vinna mun fara í gang strax og við sjáum fyrir endann á meðferð þingsins á málinu.