151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forvarnir eru útflutningsvara á Íslandi og einstakt aðgengi að meðferð er líka fyrir hendi á Íslandi. En samt sem áður er það þannig að það er fólk á Íslandi sem er með langvarandi og alvarlegan vímuefnavanda. Ég vil halda því til haga hér eftir sem hingað til í þessari umræðu að lögreglan má gera upptækt efni hjá ungmennum undir 18 ára. Það er þannig og það mun áfram verða þannig.

Ég skil vel sjónarmið hv. þingmanns vegna þess að ég held að það sé mikilvægt að ræða þessi mál í hörgul og mikilvægt að þær áhyggjur sem við höfum mögulega af væntanlegri breytingu á lagaumhverfinu séu viðraðar og að við ræðum þær. En um leið finnst mér mikilvægt að við byggjum þessa umræðu á staðreyndum, að við horfum til þess sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir okkur í þessum efnum, að refsistefnan hefur runnið sitt skeið og skilar okkur í raun og veru ekki þeim árangri sem við myndum vilja sjá. Ég spyr hv. þingmann aftur um afstöðu til neyslurýma.