151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Heilbrigð skynsemi. Það er spurning: Eigum við að byggja lögin í landinu á því sem hverjum og einum finnst vera heilbrigð skynsemi, af því að það er alveg út um allt? Ég tel það ekki hægt. Við getum ekki nálgast efnið á þann hátt.

Mig langar til að spyrja einfaldra spurninga af því að við höfum svo lítinn tíma til að fara yfir þetta allt saman. Ef við tölum bara um börnin okkar, unga fólkið í landinu sem okkur þykir vænt um og viljum vel; viljum við að þetta fólk, þessir krakkar sem eru að ganga í gegnum tímabil á ævi sinni þar sem er mjög mikil áhættuhegðun, og áhættuhegðun er bara mjög eðlilegur hluti af þroskaferlinu — viljum við búa til öruggt umhverfi fyrir þessa krakka eða ekki? Viljum við að þessir krakkar upplifi það í partíi þar sem einhver tekur slæmt efni og verður mjög veikur og deyr nánast — viljum við að krakkarnir treysti löggunni nægilega mikið til að hringja í hana og biðja um aðstoð? Eða viljum við að fólk sé að fela þetta, sé hrætt við lögguna og finnist ekki eins og það geti talað við fullorðið fólk um vandann sem það lendir í?