151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áfengi getur drepið fólk, reykingar líka. Telur hv. þingmaður að það væri gagnlegt í baráttu okkar við alvarleg áhrif áfengis í samfélaginu og alvarleg áhrif reykinga á fólk að banna neyslu þeirra, að beita sektum eða öðrum viðurlögum við neyslu áfengis eða við reykingum? Heldur hv. þingmaður að það muni minnka notkun áfengis og reykinga svo einhverju nemi og taka á þeim samfélagslegum vandamálum sem verða til út af neyslu áfengis og tóbaks? Ég velti því fyrir mér.

Annars langar mig aðeins að tala um það sem hv. þingmaður talar um, sem er fjölgun tegunda vímuefna. Hv. þingmaður telur að sú fjölgun eigi sér stað vegna þess að vímuefnasalar vilji einhvern veginn láta fólk ánetjast efnunum meira. En það er alls ekki ástæðan fyrir því að við höfum séð gríðarlega aukningu á fjölgun vímuefna. Það er bara mjög skýrt og það er vel vitað að ástæðan fyrir því að við sjáum svona ótrúlega mikla fjölgun á tegundum vímuefna er einfaldlega sú að til þess að geta bannað vímuefni þarf að skrifa niður nákvæma efnafræðilega samsetningu á því vímuefni og það vímuefni er þar með bannað. Þegar eitt ákveðið efni er bannað bregst markaðurinn, svartur markaður með vímuefni, þannig við að bætt er við einu mólikúli, bætir við einhverri einni efnasamsetningu. Þá er efni allt í einu ekki lengur bannað. Þannig er hægt að selja það utan við lögin. Þetta eru hliðaráhrif af því að vímuefni eru bönnuð.

Þessi aukna framleiðni á mismunandi tegundum vímuefna er vegna þess að vímuefni eru bönnuð. Þessi ótrúlega fjölgun kallast blöðruáhrif. Þau eru þannig að ef lokað er á einn glæpahóp sem selur vímuefni hér þá myndast annar glæpahópar þarna. Ef maður lokar á eitt vímuefni hér þá verður nýtt til þarna. Þetta poppar bara upp aftur og aftur. Þetta stríð gegn vímuefnum er búið að vera í gangi endalaust en það hefur ekki skilað árangri. Þessi fjölgun vímuefna hefur orðið á banntímum vegna bannsins. (HHG: Heyr, heyr.)