151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sem verður oft pínu ringlaður þegar ég held ræður. Ég vona bara að ég geti afringlað þingmanninn aðeins. Ég held að ég hafi sagt það þrisvar eða fjórum sinnum af hverju ég gæti ekki samþykkt þetta mál. Það er af því að ekki kemur fram hvað er neysluskammtur og það er jafnframt sagt að það eigi að koma fram í einhverri reglugerð þegar og ef málið verður að lögum. Það er það sem stendur upp úr. Ég held að við yrðum ekki kát með það, ef og þegar þetta fer í gegn og neysluskammtar verða á einhvern hátt skilgreindir, sem ég átta mig ekki alveg á hvernig á að skilgreina, samanber ræðu mína áðan, og það kæmi upp að einstaklingur sem neytir eins neysluskammts andast sökum þess. Þá held ég að við værum ekki stolt af því á Alþingi að hafa afglæpavætt þessi efni. Ég held að hv. þingmaður hljóti að geta tekið undir það með mér. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég veit ekki hvað ég á að þurfa að segja það oft. Ef þingmaðurinn skilur það ekki þá verður hann bara að búa við það skilningsleysi.