151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að ræða um löggæsluna í sambandi við það frumvarp um lögleiðingu neysluskammta fíkniefna sem við erum að ræða hér. Ég velti fyrir mér lögreglunni, svona eins og frumvarpið lítur út, sem er illa unnið og stendur algerlega eitt og sér. Ég velti fyrir mér hvaða atburðarás er verið að setja af stað með þessu frumvarpi ef það verður að lögum. Ég hef áhyggjur af þessu máli frá sjónarhorni lögreglunnar. Frá sjónarhorni hennar mun allt eftirlit með sölu fíkniefna verða erfiðara. Þannig munu neytendur veifa efnum framan í lögreglu sem stendur eftir úrræðalaus, eðlilega. Við áttum okkur líka á því að eiturlyfjaneysla mun eiga sér stað fyrir allra augum á almannafæri ef þetta verður að lögum. Sölumennirnir, sölumenn eiturefnanna, munu að sjálfsögðu fela sig innan um neytendurna.

Það er alkunna, herra forseti, að þeir sem byrja á tiltölulega skaðlegum vímuefnum leiðast gjarnan, sumir hverjir, yfir í stórhættuleg efni sem verða þeim stundum að fjörtjóni.

Ég ætla að lesa meira úr umsögn Lögreglustjórafélagsins, halda aðeins áfram með það, varðandi sölumenn og neytendur. Þetta er umsögn sem var send vegna fyrra frumvarps, ekki þessa frumvarps. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Mörkin á milli þess að vera neytandi og seljandi eru ekki alltaf ljós. Sá sem selur fíkniefni er oft og tíðum einnig neytandi. Smásala fíkniefna felur oft í sér að seljendur eru á ferðinni með lítið magn fikniefna sem gæti fallið innan viðmiða um neysluskammta. Getur reynst erfitt að sanna að vörslurnar séu í söluskyni og því er sektað fyrir vörslur fíkniefna en ekki sölu.“

Þetta er mergurinn málsins og lýsir kannski vanda löggæslunnar, verði þetta að lögum. Vandinn verður mikill. Svo segir áfram í umsögn Lögreglustjórafélagsins:

„Efla þarf fíkniefnaforvarnir hér á landi. Verja þarf börn og unglinga með öflugri og markvissri fræðslu.“

Loks segir að vanda þurfi til verka ef gera eigi grundvallarbreytingar á fíkniefnalöggjöf landsins. Lögreglustjórafélag Íslands leggist gegn samþykki frumvarpsins, eins og það var lagt fram með svipuðum hætti á síðasta þingi.

Síðan má nefna að haldlagning lögreglu á smærri skömmtum fíkniefna leiðir oft til þess að stærri mál upplýsast, eins og frétt í dag á mbl.is ber með sér, þar sem lögreglan á Suðurlandi lagði hald á tvö grömm af kannabisefnum hjá manni sem þar er búsettur. Síðan var málið rannsakað þar sem vísbendingar þóttu um að maðurinn væri að dreifa efnum. Í því sambandi var farið í fjármálagreiningu hjá viðkomandi og nú liggur fyrir að á um tveimur árum hafa um 20 millj. kr. farið í gegnum reikninga sem tengjast manninum, fyrir utan laun og aðrar útskýrðar greiðslur. Þetta kemur fram í fregnum frá lögreglunni á Suðurlandi. Lögreglan yrði sett í ákveðinn vanda með þessu. Hún myndi missa úrræði. Hún myndi missa tækifæri til að stoppa sölumenn dauðans, stoppa sölumenn fíkniefna. Hún myndi missa mikilvægt úrræði og ég ætlaði að klára — já, ég er búinn með tímann enn og aftur. (Forseti hringir.) Ég ætlaði að fara yfir tölur frá Portúgal og Hollandi (Forseti hringir.) um að fíkniefnaneysla meðal þeirra yngstu hafi aukist eftir að varsla efnanna var gerð refsilaus.