151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

713. mál
[19:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Þá langar mig að ítreka og spyrja aftur: Hvaða stofnun eða hver hefur eftirlit með þessum innihaldsefnum ef slíkt liggur fyrir og hvernig fer það fram? Er það heilbrigðiseftirlitið, er það einhver stofnun á vegum ríkisins? Smá útúrdúr, mér finnst það svolítið fyndið, ég skil að einhvers staðar þarf þetta að vera en er það Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er að fylgjast með nikótínneyslunni? Það er kannski ekkert verra, af hverju ekki bara Seðlabankinn eða einhver? Þetta er svolítið sérstakt en nafn stofnunar segir ekki allt endilega um verkefnin. En ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvert eftirlit og hver sé með það. Ég ítreka um leið það sem ég sagði áðan og ég er ekki að krefja ráðherrann um bein svör heldur kannski að reyna velta upp hvort það sé ástæða til að fylgjast með eða hvort fylgst sé með því yfirleitt hvort einhver ávanabindandi efni önnur en nikótín séu í þessum vörum, hvort það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að verið sé að bæta í þetta einhverjum efnum, kannski í ljósi þeirrar umræðu sem var hér áðan varðandi fíkniefni eða eitthvað slíkt.