151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

fátækt á Íslandi.

[14:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þessa umræðu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Fátækt er böl hverrar þjóðar og við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir fátæktargildrur í samfélaginu. Það er og mun verða verkefni þingmanna allra tíma að berjast við þann vágest. Ég verð því að nota þetta tækifæri til að þakka þeim aðilum, Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstarfi kirkjunnar, auk fjölda annarra aðila sem látið hafa sig varða að styðja fátækt fólk. Þessi hópur fólks hefur unnið kraftaverk og við eigum að standa þétt við bakið á þeim snilldarkonum sem stjórna því mikilvæga verkefni.

Ýmislegt hefur verið gert vegna heimsfaraldurs Covid-19 til að tryggja afkomu fólks, eins og fram kom í máli fjármálaráðherra. Á síðastliðnu ári var ráðist í aðgerðir til að veita stuðning og þjónustu til viðkvæmustu hópa samfélagsins. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fengu alls 70.000 kr. eingreiðslu til viðbótar við orlofs- og desemberuppbætur. Húsnæðisbætur og barnabætur hækka mjög skarpt þegar tekjur fara undir ákveðin mörk. 720 millj. kr. var varið til að styrkja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, 250 millj. kr. var varið til sérstaks stuðnings við Suðurnesin, sem komið hafa einna verst út úr Covid-kreppunni og hefur atvinnuleysi mælst þar hvað hæst. Þar hef ég sjálfur komið með tillögur í atvinnumálum sem ég fór yfir í störfum þingsins fyrr í dag. Það eina sem getur bætt stöðu atvinnulausra eru störf, fleiri störf.

Virðulegur forseti. Ég heyri að fólk telur að kórónuveirufaraldurinn hafi aukið tekjubilið hjá fólki. Það liggur fyrir þegar þúsundir manna lenda á atvinnuleysisbótum og hlutabótum eða öðrum úrræðum, þá eykst bilið. Ójöfnuður eykst um stund þegar stór hluti fólks missir vinnunna og þiggur bætur. Með því að endurheimta störfin jafnast bilið á ný.

Virðulegi forseti. Við eigum að koma í veg fyrir fátækt með öllum ráðum. Liður í því er að tryggja að lágmarksgreiðsla til eldra fólks og annarra bótaþega verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði.