151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

verðbréfasjóðir.

699. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verðbréfasjóði. Frumvarpið var unnið í ráðuneytinu með aðstoð frá nefnd sem skipuð var helstu haghöfum og með því eru lögð til ný heildarlög um verðbréfasjóði. Frumvarpið felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/91/ESB að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög. Með tilskipuninni eru gerðar breytingar á eldri verðbréfasjóðatilskipun með hliðsjón af þróun markaðarins og reynslu þátttakenda á markaði og eftirlitsaðila með það að markmiði að bæta úr þeim veikleikum sem höfðu komið í ljós á regluverki um verðbréfasjóði og upp að vissu marki að samræma kröfurnar við þær sem gerðar eru í tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Markmiðið með breytingunum er fyrst og fremst að auka vernd fjárfesta og auka gagnsæi í rekstri verðbréfasjóða.  

Einnig er lagt til að tilskipun 2010/78/ESB um breytingu á ýmsum tilskipunum að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði, eða Omnibus 1 eins og hún er kölluð, verði veitt lagagildi hér á landi að því er varðar verðbréfasjóði.

Í dag gilda lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði. Lagt er til að sett verði ný heildarlög um verðbréfasjóði, en almennt eru ekki lagðar til efnisbreytingar á ákvæðum gildandi laga nema að því leyti sem innleiðing áðurnefndra tilskipana gerir nauðsynlegt. Það var þó talin þörf á breyttri framsetningu og viðbótum á stöku stað þegar borið er saman við ákvæði gildandi laga í þeim tilgangi að skerpa á innleiðingu eldri verðbréfasjóðatilskipunar 2009/65/EB sem innleidd var í lög um verðbréfasjóði á árinu 2013. Þá eru lagðar til tilfærslur ákvæða úr lögum um fjármálafyrirtæki yfir í lög um verðbréfasjóði, fyrst og fremst að því er varðar kröfur til starfsleyfis rekstrarfélaga verðbréfasjóða, starfsheimildir og starfsskilyrði. Almennt er þar ekki um efnisbreytingar á gildandi rétti að ræða. Jafnframt er lagt til að rekstrarfélög verðbréfasjóða teljist ekki lengur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, heldur fjármálastofnanir líkt og gildir um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, svo sem vera ber því að við viljum að íslenskt lagaumhverfi endurspegli betur hugtakanotkun í þeim Evrópureglum sem gilda á fjármálamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu. — Allt framangreint þótti leiða til þess að lagt yrði til að sett yrðu ný heildarlög um verðbréfasjóði í stað þess að gildandi lögum væri breytt.

Helstu breytingar sem lagðar eru til á gildandi lögum um verðbréfasjóði eru í fyrsta lagi að hlutverk vörsluaðila verðbréfasjóða er gert skýrara og ákvæði um ábyrgð þeirra eru endurbætt. Skilgreint er hvaða aðilar geti verið vörsluaðilar og skilyrði sett fyrir útvistun á verkefnum þeirra til þriðja aðila. Auk þess eru settar strangari kröfur til sjálfstæðis stjórnarmanna vörsluaðila og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Í gildandi lögum er séríslenskt ákvæði um óhæði stjórnarmanna rekstrarfélaga sem sett var í kjölfar ábendinga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eftir hrun fjármálakerfisins á árinu 2008. Ekki er lagt til að því verði breytt, nema að því leyti sem gerðar eru strangari kröfur á grundvelli tilskipunarinnar, þ.e. lagt er til að óheimilt verði að stjórnarmaður í rekstrarfélagi verðbréfasjóða sé líka stjórnarmaður eða starfsmaður vörsluaðila sjóðanna. Að sama skapi verði óheimilt að stjórnarmaður vörsluaðila verðbréfasjóða sé líka stjórnarmaður eða starfsmaður rekstrarfélags. Í gildandi lögum nær takmörkunin varðandi stjórnarmenn rekstrarfélaga til stjórnarmanna og lykilstarfsmanna vörsluaðila og móðurfélags, auk þess sem meiri hluti stjórnarmanna skal vera óháður móðurfélagi rekstrarfélags og vörsluaðila sjóða í rekstri rekstrarfélags.

Í öðru lagi er sem fyrr segir lagt til að ákvæði um starfsleyfi, starfsheimildir og skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða verði færð úr lögum um fjármálafyrirtæki og að rekstrarfélögin teljist ekki lengur fjármálafyrirtæki heldur verði þau flokkuð sem fjármálastofnanir.

Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum núgildandi laga að því er varðar fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða. Nýtt eru heimildarákvæði í tilskipuninni og veittar heimildir til fjárfestingar í allt að 25% af eignum í skuldabréfum samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf eða sambærilegum skuldabréfum útgefnum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og svo til að beita svokölluðum fjárfestingaraðferðum, t.d. verðbréfalánum eða endurhverfum verðbréfaviðskiptum, í þeim tilgangi að ná fram skilvirkri stýringu eigna sjóðs. Til að gæta samræmis við tilskipunina er svo lagt til aukið svigrúm fyrir rekstrarfélög til að laga frávik þar sem farið er fram úr fjárfestingarheimildum, kveðið er á um heimildir verðbréfasjóða til að eignast erlendan gjaldeyri með skiptasamningum og svo er gerð breyting á fjárfestingarheimildum fylgisjóða.

Þá er í fjórða lagi skerpt á eftirlits- og valdheimildum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og ákvæðum um samstarf við önnur lögbær yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem varðandi vettvangsathuganir og rannsóknir, upplýsingaskipti, í hvaða tilvikum heimilt er að synja beiðni um samstarf og um úrlausn ágreinings á milli lögbærra yfirvalda, allt í því skyni að samræma lágmarksvaldheimildir lögbærra yfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins og til að endurspegla hið nýja eftirlitsumhverfi á fjármálamarkaði sem komið var á í kjölfar fjármálakreppunnar á árunum 2007–2008 með reglugerðum (ESB) nr. 1092 til 1095/2010.

Í fimmta lagi er svo lagt til að kveðið verði á um skyldu rekstrarfélaga til setningar starfskjarastefnu sem nær til starfskjara stjórnarmanna og starfsmanna rekstrarfélags og skal stefnan og framkvæmd hennar stuðla að skilvirkri áhættustýringu og sporna við óhóflegri áhættutöku sem er í ósamræmi við áhættusnið og reglur sjóðanna. Reglur tilskipunarinnar um starfskjarastefnu og framkvæmd hennar verða með þessu aðeins innleiddar að litlum hluta, en að öðru leyti er miðað við að beðið verði með innleiðingu ákvæðanna vegna tengsla við fyrirhugaðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til innleiðingar á sambærilegum ákvæðum tilskipunar 2013/36/ESB. Rétt þykir að þessar breytingar verði gerðar samhliða til að gæta samræmis á fjármálamarkaði hvað starfskjarastefnu varðar.

Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, einkum að því er varðar breytta hugtakanotkun á hugtakinu fjárfestingarsjóður vegna sérhæfðra sjóða sem heimilt er að markaðssetja til almennra fjárfesta. Er lagt til að vísað verði til sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta í stað fjárfestingarsjóða. Þá eru lagðar til breytingar á kröfum sem verðbréfafyrirtæki sem sinna hlutverki vörsluaðila sérhæfðra sjóða þurfa að uppfylla og gerðar eru strangari kröfur til sjálfstæðis stjórnarmanna vörsluaðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta og rekstraraðila sem reka slíka sjóði með sama hætti og lagt er til að gildi vegna verðbréfasjóða. Jafnframt er lagt til að skráðir rekstraraðilar tilkynni til Fjármálaeftirlitsins nýja sjóði í rekstri í því skyni að auðvelda eftirlit með sérhæfðum sjóðum skráðra rekstraraðila.

Virðulegi forseti. Verðbréfasjóðatilskipunin felur í sér lágmarkskröfur sem aðildarríki verða að taka upp í landsrétt. Heimilt er að setja strangari kröfur, en ekki að ganga skemur. Í gildandi lögum um verðbréfasjóði eru nokkur séríslensk ákvæði sem sett voru í kjölfar falls bankanna árið 2008. Ákvæði þessi eru til að mynda um starfskjör, óhæði stjórna rekstrarfélaga og fjárfestingarheimildir peningamarkaðssjóða. Ekki er lagt til að ákvæði þessi verði felld brott eða að þeim verði breytt nema að því leyti sem ákvæði tilskipunarinnar ganga lengra. Ekki er heldur lagt til að sett verði ný íþyngjandi séríslensk ákvæði eða strangari kröfur en kveðið er á um í tilskipuninni, nema að því er varðar til hvaða aðila heimilt er að útvista eignastýringu sjóðs sem helgast af kröfum sem gerðar eru til eignastýringaraðila hér á landi.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á öll starfandi rekstrarfélög verðbréfasjóða, starfsleyfisskylda rekstraraðila sérhæfðra sjóða og vörsluaðila þeirra. Þá munu skráningarskyldir rekstraraðilar sérhæfðra sjóða einnig verða fyrir áhrifum, en aðeins vegna lítils háttar breytinga á kafla um eftirlit, viðurlög og samstarf lögbærra yfirvalda í lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og vegna tilkynningarskyldu um nýja sjóði í rekstri. Talið er að um tímabundin verkefni verði að ræða, svo sem vegna umsóknar verðbréfafyrirtækja til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands óski þau eftir því að vera vörsluaðili verðbréfasjóða, og vegna samningagerðar rekstrarfélaga við vörsluaðila, en að til lengri tíma litið verði um óveruleg áhrif að ræða. Umsvif Fjármálaeftirlitsins munu aukast, fyrst og fremst vegna aukins eftirlits með vörsluaðilum verðbréfasjóða. Auknum umsvifum Fjármálaeftirlitsins verður mætt innan rekstraráætlunar. Nettóáhrif á ríkissjóð verða lítil sem engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.