151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[16:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skoðum málið þá úr sæti fólksins sem á að rýra réttindin hjá samkvæmt þessu bréfi Alþýðusambandsins. Hvað með hækkun lífeyrisgreiðslualdurs úr 16 árum í 18 ár, hvað er verið að færa mörg hundruð milljónir á hverju ári frá vinnandi ungu fólki í vasa atvinnurekenda? Tölum um það að breyta verðbótum lífeyrisréttinda þannig að þær reiknist árlega frekar en mánaðarlega, hvert er verið að færa áhættuna af verðbólguskoti eða sveiflum í verðlagi innan árs? Og tölum um það að áfram verði undanþága í lögum frá 15,5% lífeyrisframlagi með ótímasettu bráðabirgðaákvæði, sem snertir sjómenn sérstaklega? Hvað með það að sjómenn fá ekki að sitja við sama borð og njóta sömu lífeyrisréttinda og annað launafólk? Þetta snýst ekki, eins og ráðherra lætur það hljóma, um það hver er frekastur í hagsmunagæslunni. Þetta snýst einfaldlega um það að hlusta á fólkið sem þetta kemur illa við.