151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins er að jafna lífeyrisréttindastöðuna á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna held ég að það sé mikil rangtúlkun á málinu að tala um það og gefa því þá heildareinkunn að það komi sér illa fyrir launþega, það er algerlega fráleit nálgun. Við skulum bara ræða það og ég er ekkert feiminn við að ræða það að vel má hafa ólíkar skoðanir á því sem ég rakti í framsögu minni, hvort það sé þess virði að samræma upphaf réttindaávinnslunnar úr 16 í 18 ár. Og hver er að gefa sér að þetta verði allt með þeim hætti að það komi atvinnurekendum eitthvað sérstaklega vel? Það er ekki tilgangurinn með breytingunni heldur hitt sem er samræmingartilgangurinn. Að sjálfsögðu þolir það sömuleiðis skoðun að velta fyrir sér hversu oft eigi að uppreikna vísitölubreytingar, en mér finnst reyndar dálítið sá keimur af því orðavali sem hv. þingmaður notaði hér að hann sé fastur á einhverjum gömlum verðbólgutímum.