151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að þetta frumvarp er í sjálfu sér allmikil tíðindi þar sem verið er að reyna að samræma þetta eftir margra ára og jafnvel áratugaumræðu. Ég tek því undir það með hæstv. ráðherra að þetta mál skiptir verulegu máli. Auðvitað er það ávöxtur samtala og sjálfsagt átaka á vinnumarkaði þar sem menn hafa verið að reyna að ná samkomulagi og síðan kemur Alþingi að málinu. Þess vegna finnst mér svolítið sérkennilegt að það virðist vera þannig að í þessu frumvarpi birtast ákvæði sem eru í sjálfu sér kannski minni háttar miðað við hið stóra samhengi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið misráðið, þannig skulum við orða það, að setja inn þessi ákvæði sem virðast nú helst valda ágreiningi og bréfaskrifum frá verkalýðshreyfingunni til dæmis.